Svæðisstjórn hefur verið virkjuð í Árnessýslu vegna fjölda ökutækja sem sitja fastir á Hellisheiði, Lyngdalsheiði og Mosfellsheiði. Þetta kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi.
Þá eru björgunarsveitir frá Vík á leiðinni upp að Sólheimajökli þar sem fjórir bílar eru fastir, að sögn Davíðs Más Bjarnason, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, en um hundrað björgunarsveitarmenn eru nú að störfum.
Þriggja bifreiða árekstur varð á Hellisheiði en meiðsli eru ekki alvarleg samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Björgunarsveitir hafa þá unnið að því að hreinsa til á Hellisheiði og fylgdu þar niður nokkrum ökumönnum sem þar höfðu lent í vanda. „Menn fóru frá Eyrarbakka, Hveragerði og Reykjavík áðan og keyrðu vegina til að ganga úr skugga um að engir bílar væru í vanda í Þrengslunum og Sandskeiði,“ segir Davíð Már og kveður nokkra bíla hafa verið í vanda á Hellisheiðinni.
Mjög slæmt veður er í uppsveitum Árnessýslu og skiptir fjöldi bifreiða, sem þar sitja fastar, tugum. Fjölmargar bifreiðar sitja fastar á Lyngdalsheiði, Mosfellsheiði og við Þingvelli. Þá hafa einnig borist tilkynningar um fastar bifreiðar á Laugarvatnsvegi og Biskupstungnabraut.
Stefnt er að opnun fjöldahjálpastöðvar á Borg í Grímsnesi.
Hermundur Guðsteinsson varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi segir engar fréttir af opnun fjöldahjálpastöðvarinnar enn, verið sér að reyna að ná utan um stöðuna.
„Við erum bara að vinna að þessu, reyna að koma þessu í gang,“ segir Hermundur við mbl.is.
Lögregla biður ökumenn og íbúa uppsveita Árnessýslu að halda kyrru fyrir og virða lokanir Lögreglu og Vegagerðarinnar.
Frekari upplýsingar verða veittar eftir því sem aðgerðum vindur fram.
Uppfært 18.25:
Rauði krosinn opnaði fjöldahjálparstöð í húsnæði sínu að Eyrarvegi 28 kl. 18.
Áður hafði komið fram að opna ætti fjöldahjálparstöð á Borg, en af því verður ekki heldur verður tekið á móti veðurtepptum ferðalöngum á Selfossi. Þar verður opið þangað til veðrinu slotar og vegir opnaðir.