Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna tveggja gönguskíðamanna sem voru orðnir blautir og kaldir austan við Hofsjökul fyrr í dag. Aðstæður á hálendinu eru erfiðar og tók það þyrluna fjóra tíma að ná til mannanna.
Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörg var kallað eftir aðstoð björgunarsveita vegna þess að ekki leit út fyrir að þyrlunni tækist að ná til mannanna vegna þess að það gengur á með dimmum éljum á svæðinu. Mennirnir höfðu gist í tjaldi á hálendinu og voru orðnir býsna kaldir í morgun.
Björgunarsveitir frá Norðurlandi og Suðurlandi voru sendar af stað. Um 100 manns voru á leiðinni þegar það rofaði til og þyrlan náði til mannanna, rétt rúmlega fjögur.
Mennirnir voru fluttir á sjúkrahúsið á Akureyri.