Dæmdar bætur vegna 60 ára auglýsinga

Sýning á verkum Jóns var haldin í Gallerí Fold árið …
Sýning á verkum Jóns var haldin í Gallerí Fold árið 2013. Hún var tilenkuð Rafskinnu og auglýsingunum sem í henni birtust á árunum 1933-1957. Auglýsingar eru vitnisburður um tíðarandann á hverjum tíma og fróðleg innsýn í liðna tíð. mbl.is/Rósa Braga

Börnum listamannsins Jóns Kristinssonar voru í gær dæmdar 4,8 milljónir í skaða- og miskabætur vegna brota á höfundarrétti við sýningu og sölu á svokölluðum Rafskinnumyndum sem Jón teiknaði í samstarfi við Gunnar Bachmann og voru birtar í rafknúinni flettiauglýsingagrind, sem bar heitið Rafskinna. Var Rafskinna staðsett í glugga í Austurstræti á árunum fyrir og miðja síðustu öld og birtust þar auglýsingar fyrirtækja fyrir jólin.

Afkomendur Gunnars settu upp sýningu í Gallerí Fold árið 2013 þar sem frummyndir voru til sölu. Þá voru eftirprentanir einnig til sölu. Töldu börn Jóns að með sýningunni væri brotið gegn höfundarréttindum föður síns heitins og kröfðust þess að fá frumgerðirnar sem og eftirprentanirnar. Þá var gerð krafa um skaða- og miskabætur.

Gunnar kom Rafskinnu á fót árið 1935 eftir að hafa kynnst sams konar fyrirbæri í París. Þótti þetta nýstárlegt á sínum tíma, en blaðsíðum bókarinnar var flett sjálfkrafa og var auglýsing á hverri blaðsíðu. Upphaflega teiknaði Tryggvi Magnússon myndir í bókina, en vegna veikinda hans árið 1943 leitaði Gunnar til Jóns sem tók þá við og teiknaði hann auglýsingarnar til ársins 1957 þegar starfsemin lagðist af í kjölfar andláts Gunnars.

Jón lést árið 2009 og því er enn langt í að höfundaréttindi hans falli úr gildi. Börn hans byggja því kröfu sína á að höfundaréttur Jóns nái til teikninganna sem birtast í verkunum og leturs þess texta sem þar er að finna. Töldu þau ekki að til höfundaréttar hafi stofnast handa Gunnari þar sem verkin hafi verið unnin í verktaki og án framsali höfundaréttar.

Fjölmargar myndir voru til sýnis á sýningunni árið 2013.
Fjölmargar myndir voru til sýnis á sýningunni árið 2013. mbl.is/Rósa Braga

Börn Jóns vísa í stefnu sinni til þess að nafn Jóns hafi ekki komið fram á boðskorti sem var sent vegna sýningarinnar. Þá hafi Gallerí Fold birt boðskortið á heimasíðu sinni sem og auglýsingar vegna opnunar sýningarinnar bæði á Facebook og öðrum miðlum og þar hafi einnig verið brotið á höfundarétti Jóns. Að lokum að með sýningunni sjálfri hafi verið brotið gegn höfundarétti hans.

Samhliða sýningunni hófu börn Gunnars útgáfu á veggspjöldum og póstkortum með eftirprentun verkanna.

Börn Gunnars mótmæltu því hins vegar að ekki hafi stofnast til höfundaréttar til handa Gunnari og segja þau hann hafa verið höfund textans. Þá hafi Gunnar meðal annars átt stóran þátt í hugmyndavinnu verkanna. Telja þau því engum vafa undirorpið að framlög Gunnars hafa verið afar veigamikil og hann átt stóran hluta í sköpun auglýsingamyndanna. Vísa þau í viðtal við Jón í Morgunblaðinu árið 1996 þar sem hann sagði Gunnar hafa samið auglýsingarnar. Vegna þessa séu þeir Gunnar og Jón samhöfundar verkanna.

Þá telja þau að Jón hafi framselt höfundarétt myndanna til Gunnars og að rangt sé haft í stefnunni að framsal Jóns hafi aðeins náð til notkunar í auglýsingunum í Rafskinnu.

Í dómi héraðsdóms er ekki tekið undir með að Gunnar sé samhöfundur Jóns að auglýsingunum. Þá er heldur ekki fallist á sýnt hafi verið fram á að Jón hafi framselt höfundarétt sinn við aðra notkun en í Rafskinnu til Gunnars.

Úrklippa úr Morgunblaðinu, en árið 1996 var rætt við Jón …
Úrklippa úr Morgunblaðinu, en árið 1996 var rætt við Jón vegna Rafskinnu. mbl.is/Rósa Braga

Afkomendur Gunnars eru aftur á móti sýknuð af kröfu um að afhenda verkin, þar sem ekki þykir sýnt hafa að Jón hafi farið fram á að fá þau til baka og að höfundaréttur og eignaréttur frumverka fari ekki alltaf saman.

Þá telur dómurinn sem fyrr segir að afkomendur Gunnars, fyrirtæki í þeirra eigu og rekstraraðili Gallerí Foldar eigi að greiða skaða- og miskabætur vegna málsins. Þurfa börn Gunnars og fyrirtæki þeirra að greiða börnum Jóns 3,2 milljónir í skaðabætur fyrir fjárhagslegt tjón og 500 þúsund krónur í miskabætur. Þá þarf rekstrarfélag Gallerí Foldar að greiða 895 þúsund krónur í skaðabætur og 200 þúsund í miskabætur vegna málsins.

Lesa má dóm héraðsdóm í heild hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert