Rekstur bílsins rúmar 2 milljónir

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rekstrarkostnaður vegna bifreiðar Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem er af gerðinni Kia Sportage, er rúmar tvær milljónir króna miðað við útreikninga sem Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) gerði fyrir Morgunvakt Rásar 2 eða 2,07 milljónir króna. Miðað er við forsendur síðasta árs en Ásmundur fékk endurgeiddan aksturskostnað frá Alþingi vegna þess tímabils upp á 4,6 milljónir króna. Munurinn er um tvær og hálf milljón króna.

Miðað er við að endursöluverð bifreiðarinnar sé um 3,8 milljónir króna en ný kostaði slík bifreið um 6,7 milljónir í maí 2016. Ásmundur keypti bifreiðina notaða í lok árs 2016 en hún kom ný á götuna í mars það ár. Reiknað er með meiri lækkun virðis bifreiðarinnar vegna mikils aksturs Ásmundar. Gert er ráð fyrir að bifreiðin eyði 7 lítrum af dísilolíu á hverja eitt hundrað kílómetra sem þýði eyðslu upp á 3.333 lítra á síðasta ári en þá ók Ásmundur 48 þúsund kílómetra.

Eldsneytiskostnaðurinn á síðasta ári var samkvæmt því um 654 þúsund krónur. Ennfremur er gert ráð fyrir 270 þúsund króna viðhaldskostnaði, 90 þúsund krónum í hjólbarða, 160 þúsund krónum í tryggingar og 26 þúsund krónur í skatta og bifreiðaskoðun. Ennfremur 13 þúsund krónum í bílastæði og 36 þúsund krónum í þrif og annað. Þá er gert ráð fyrir 684 þúsund króna verðrýrnun og tæplega 139 þúsund krónur í tapaða innlánsvexti af virði bifreiðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert