Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur umræðuna um endurgreiðslu sína vegna aksturskostnaðar meiri en góðu hófi gegni. Þá finnst honum umfjöllun fréttamiðla á tíðum jaðra við einelti.
Í samtali við mbl.is vísar hann til þess að nú hafi umfjöllun um það að hann sé sá þingmaður sem fékk mestan aksturskostnað endurgreiddan fyrir síðasta ár, eða 4,6 milljónir króna, nú hafa verið verið aðalfrétt á miðlum Ríkisútvarpsins í heila viku.
Ásmundur bætir við að honum finnist sjálfsagt að þessi mál séu skoðuð um þau fjallað en telur þó umfjöllun síðustu daga meiri en góðu hófu gegni. Hann segir allt þegar hafa komið fram í þessu máli og ljóst sé að hann hafi ekki brotið neinar reglur. „Þetta er hluti af starfskjörum mínum,“ segir hann.
Hann nefnir fjölmiðlamanninn Helga Seljan sem dæmi. „Menn eins og Helgi Seljan fá til sín skoðanabræður sína til þess að tala illa um mig í klukkutíma,“ segir Ásmundur og bætir við að sú staðreynd að hann sé Sjálfstæðismaður eigi líklega þátt í því að hann liggi betur við höggi.
Ásmundur segir akstursmál sín í skoðun og það sé inni í myndinni að skipta yfir í bílaleigubíl. Hann hafi áður boðið þinginu að leigja sinn bíl á sömu kjörum og bílaleigubíl en því hafi verið hafnað. Hann hefur stóru kjördæmi að sinna og segist því þurfa að keyra mikið og oft á hættulegum vegum. „Ég vil því stjórna því sjálfur hvernig bíl ég keyri á.“
Þá segir Ásmundur þingmenn í öðrum kjördæmum oft eiga möguleika á því að ferðast eftir öðrum leiðum, til dæmis geta tekið flug á milli staða. Það sé ekki hægt í suðurkjördæmi. „Það er ekki beint flug á Hellu til dæmis, eða Vík í Mýrdal.“ Sökum þess þurfi hann keyra á milli staða og eyði því oft góðum part úr vinnudeginum í bílnum.
Einnig segir Ásmundur fólk hafa komið að máli við sig og velt því upp hvort hann og Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra fái verri útreið en aðrir í fjölmiðlum eins og RÚV og Kjarnanum sökum skoðana sinna tengda útlendingamálum. Þau vilji bæði „taka til“ í útlendingamálum og sökum þess sé lagt harðar að þeim en öðrum stjórnmálamönnum.
Samkvæmt útreikningi sem Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) gerði fyrir Morgunvakt Rásar 2 er rekstrarkostnaður bifreiðar eins og Ásmundar 2,07 milljónir króna en Ásmundur fékk endurgeiddan aksturskostnað upp á 4,6 milljónir króna. Munurinn er um tvær og hálf milljón króna.
Um þetta segir Ásmundur að ef svo mikill munur sé á því sem fólk fær endurgreitt og raunverulegum kostnaði þurfi að skoða það. Þetta eigi að vera þannig að fólk fái endurgreiddan þann kostnað sem það leggur út og kannski aðeins ríflega það.