150 viðskiptafræðingar í atvinnuleit

Nú nýverið fékk Vinnumálastofnun niðurstöður úr þjónustukönnun sem gerð var …
Nú nýverið fékk Vinnumálastofnun niðurstöður úr þjónustukönnun sem gerð var meðal atvinnurekenda sem nýta sér þjónustu stofnunarinnar. Þar kom fram að 70% þeirra sem ráðið hafa fólk til sín af atvinnuleysiskránni eru ánægðir með ráðninguna. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er óþægileg staðreynd að á skrá Vinnumálastofnunar er um þessar mundir að finna fjölda einstaklinga sem búa að viðamikilli og fjölbreyttri háskólamenntun,“ segir í bréfi sem Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, sendi til forstöðumanna stofnana ríkisins og framkvæmdastjóra sveitarfélaga. Í bréfinu fjallar Gissur um möguleika á að ráða háskólamenntaða atvinnuleitendur til sumarstarfa með fjárstyrk frá Vinnumálastofnun. 

Nefnir Gissur í bréfi sínu að 150 viðskiptafræðingar séu í atvinnuleit, 54 lögfræðingar, 33 kennarar og 18 verk- og tæknifræðingar. Þá eru á skrá Vinnumálastofnunar tæplega 900 manns með háskólamenntun af öðru tagi.

„Það er afar mikilvægt að þetta fólk fái að láta til sín taka á vinnumarkaðnum og Vinnumála-stofnun vill beina því til ykkar hvort þau sumarstörf sem falla til á ykkar vegum nú í sumar gætu ekki staðið þessum atvinnuleitendum til boða,“ skrifar Gissur í bréfi sínu. „Möguleikar væru á því að með hverjum sem ráðinn væri, fylgdi starfsþjálfunarstyrkur (enda væri viðkomandi búinn að vera þrjá mánuði eða lengur á atvinnuleysisskrá) sem næmi annað hvort hálfum eða fullum atvinnuleysisbótum í allt að sex mánuði eða ráðningartímann ef hann er styttri.“ Fullar bætur eru nú 227.417 krónur.

Gissur segir að æskilegast væri að störfin sem um ræðir falli sem best að sérfræðimenntun og kunnáttu hvers og eins svo að í ráðningunni felist þjálfun sem nýst getur í næstu skrefum fólksins út á vinnumarkaðinn.

„Vinnumálastofnun vill gera þetta samstarf sem hér er boðað til með ykkur, eins einfalt og mögulegt er. Stjórnendur ykkar sem vilja nýta sér þennan möguleika, senda tölvupóst til þjónustuskrifstofa okkar með upplýsingum um störf og starfstíma og starfsmenn Vinnumálastofnunar verða í sambandi fljótlega í kjölfarið og kanna möguleika á að miðla til ykkar atvinnuleitendum til samræðu og e.t.v. ráðningar,“ stendur enn fremur í bréfi Gissurar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert