Forsætisnefnd Alþingis mun koma saman á fundi á mánudag þar sem upplýsingar um starfskjör alþingismanna verða teknar til umræðu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Steingrími J. Sigfússyni, forseta Alþingis.
Þar segir að undanfarna daga hafi honum, þingmönnum öllum og skrifstofu þingsins borist fjöldinn allur af fyrirspurnum um starfskjör alþingismanna, ýmist með ósk um upplýsingar um heildarkostnað eða sundurgreindar greiðslur og endurgreiðslur til einstakra þingmanna.
Undanfarið hefur verið fjallað um aksturskostnað þingmanna í fyrra sem nam rúmlega 29 milljónum króna og var kostnaður fyrir þann þingmann sem fékk hæstan endurgreiddan kostnað 4,6 milljónir króna. Þingmaðurinn, Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur umræðuna um endurgreiðslu sína vegna aksturskostnaðar meiri en góðu hófi gegni og hefur hann greint frá því að honum finnist umfjöllun fréttamiðla á tíðum jaðra við einelti.
Frétt mbl.is: Telur fréttaflutning jaðra við einelti
„Næst á dagskrá í þessu máli er að forsætisnefnd Alþingis mun halda áfram umfjöllun sinni um þær reglur sem í gildi eru og taka þær til endurskoðunar, fyrirkomulag þeirra, eftirfylgni og upplýsingagjöf,“ segir í tilkynningu frá forseta Alþingis.
Á fundinum á mánudag verður beiðnum fjölmiðla um frekari upplýsingar vísað inn í vinnu forsætisnefndar og henni „hraðað eins og kostur er,“ líkt og segir í tilkynningu.
Steingrímur hefur áður greint frá því að til skoðunar hefur verið undanfarna mánuði að auka upplýsingagjöf um kjör og starfskostnaðargreiðslur alþingismanna á vef Alþingis.
Frétt mbl.is: Birtar verði auknar upplýsingar um kostnað