Glitnir HoldCo hefur áfrýjað dómi héraðsdóms í svokölluðu lögbannsmáli til Landsréttar. Þetta staðfestir Ólafur Eiríksson, lögmaður Glitnis HoldCo, við mbl.is.
Málið snýst um gögn innan út Glitni banka sem Stundin og Reykjavík Media hafa undir höndum um viðskiptavini bankans og ritaðar voru fréttir upp úr.
Glitnir HoldCo fór fram á lögbann á notkun gagnanna sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu samþykkti. Héraðsdómur staðfesti hins vegar ekki lögbannið með dómi sínum 2. febrúar. Með því að áfrýja málinu mun lögbannið áfram verða í gildi meðan málið verður rekið fyrir dómstólum.
Röksemdir Glitnis HoldCo fyrir því að lögbannið yrði staðfest fyrir héraðsdómi voru þær að fjölmiðlarnir höfðu lýst því yfir að ekki væri búið að birta allar fréttir úr gögnunum sem þeir hefðu viljað þegar lögbannið var sett á. Þá fari birting gagnanna gegn ákvæðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og frekari birting geti leitt til mögulegrar skaðabótaskyldu félagsins.
Stutt var til alþingiskosninga er sýslumaður staðfesti lögbannskröfuna, en umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media hafði að miklu leyti snúist um viðskipti Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, við Glitni í aðdraganda hruns íslenska fjármálakerfisins haustið 2008.
Fjölmargir fordæmdu lögbannið, til dæmis stjórn Blaðamannafélags Íslands. Í yfirlýsingu félagsins 18. október sagði að það væri stóralvarlegt mál að leggja hömlur á tjáningarfrelsi í lýðfrjálsum löndum og enn alvarlegra þegar það væri gert í aðdraganda almennra þingkosninga.
Bjarni Benediktsson sagðist einnig ósáttur með lögbannið og sagði að menn gætu farið að spyrja sig spurninga um hvort verið væri að þjóna honum með setningu lögbannsins. Sagðist hann aldrei á sínum stjórnmálaferli hafa látið sér detta í hug að láta skerða tjáningarfrelsi manna þegar fjallað væri um opinberar persónur eins og hann. Bjarni sagði aftur á móti alvarlegt ef gögn hefðu lekið út úr fjármálakerfinu í stórum stíl um fjárhagsmálefni þúsund Íslendinga.