Aukinn fjöldi þeirra sem eru með háskólamenntun er ein af ástæðunum fyrir því hve margir úr þeim hópi eru á atvinnuleysisskrá. Einnig hefur vöxturinn í atvinnulífinu ekki skilað sér nægilega mikið í störfum fyrir háskólamenntað fólk.
Þetta segir Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar.
Í bréfi hans til forstöðumanna stofnana ríkisins og framkvæmdastjóra sveitarfélaga kom fram að 150 viðskiptafræðingar séu í atvinnuleit, 54 lögfræðingar, 33 kennarar og 18 verk- og tæknifræðingar. Tæplega 900 manns með háskólamenntun af öðru tagi eru á skrá Vinnumálastofnunar.
Samtals er atvinnulaust fólk með háskólamenntun því yfir 1.100 talsins, sem er um fjórðungur af þeim sem eru á skrá hjá Vinnumálastofnun.
Gissur segir gott fyrir samfélagið í heild að fleiri séu með háskólamenntun en best væri ef fólkinu byðust störf við hæfi.
„Ég hef haft áhyggjur af því að þessi vöxtur í atvinnulífinu, sem hefur kannski fyrst og fremst verið á sviði byggingastarfsemi og ferðaþjónustu, hafi ekki skilað sér nægilega mikið í störf fyrir háskólamenntað fólk. Það er ein skýringin,“ segir hann.
Þrátt fyrir að almennt hafi dregið úr atvinnuleysi segir hann þróunina ekki hafa verið eins hraða í þessum hópi. „Við erum að reyna að örva okkar samstarfsaðila, alla vega hjá þessum opinberu stofnunum og fyrirtækjum, hvort þau gætu séð möguleika á að búa til starfsþjálfunartækifæri,“ bætir Gissur við en nefnir þó að mikil spurn sé eftir heilbrigðismenntuðu starfsfólki.
Hann segir fjármálakerfið ekki vera að búa til störf í nægilega miklu magni og þeim fari frekar fækkandi. Á sama tíma sé mikil sókn í viðskiptafræðinám í háskólum.
„Það væri kannski betra fyrir menn sem eru í atvinnuleit og í leit að draumastarfinu að taka starf sem er kannski ekki óskastarfið og leita þá þaðan,“ segir Gissur og bendir á að þannig geti menn fengið möguleika til að sanna sig á atvinnumarkaði.