Veðurstofa Íslands hefur sent frá sér viðvörun vegna umfjöllunar um nýfundinn íshelli í Blágnípujökli sem gengur suðvestur úr Hofsjökli.
Öndunarerfiðleikar og augnskemmdir geta fylgt því að dvelja lengur en eina klukkustund í hellinum vegna loftmengunar þar inni. Fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofunni að í hellinum mældist styrkur brenniseinsvetnis um 60 ppm og bent er á að ofan við 20 ppm styrk brennisteinsvetnis hætta margir að finna lyktina af því. Ef styrkurinn fer yfir 100 ppm er lífshætta á ferðum.
„Því er óráðlegt að fara inn í þennan helli nema hafa með sér gasmælitæki sem gefur til kynna hvort styrkur hættulegra gastegunda sé yfir viðmiðunarmörkum,“ segir í tilkynningunni.
„Auk hættu af eitruðum lofttegundum skal bent á að ísflekar virðast sums staðar hanga lausir í lofti hellisins og getur því verið hættulegt að fara þar um.“
Bent er á skýrslu á vef Vatnajökulsþjóðgarðs um helstu hætturnar í íshellum.