Karlmaður sem grunaður er um að hafa tælt 18 ára dreng til samræðis í nokkur skipti eftir að hafa gefið honum mikið magn lyfja í um vikutíma, hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 12. apríl.
Þetta staðfestir Kristján Ingi Kristjánsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Var maðurinn úrskurðaður í fjögurra vikna áframhaldandi varðhald, en krafan byggir á c og d-lið 1. mgr. 95 gr. laga um meðferð sakamála. Þar segir að ætla megi að maðurinn muni halda áfram brotum meðan máli hans er ekki lokið eða rökstuddur grunur leiki á að hann hafi rofið í verulegum atriðum skilyrði sem honum hafa verið sett í skilorðsbundnum dómi. Einnig að telja megi gæsluvarðhald nauðsynlegt til að verja aðra fyrir árásum sakbornings ellegar hann sjálfan fyrir árásum eða áhrifum annarra manna.
Maðurinn var nýlega ákærður fyrir fjölda brota gegn sama dreng sem áttu sér stað yfir tveggja ára tímabil. Þá er maðurinn einnig grunaður um að hafa beitt annan dreng kynferðislegri áreitni.
Fyrirhugað er að aðalmeðferð málsins hefjist föstudaginn 13. apríl.