Sena tekur yfir Iceland Airwaves

Iceland Airwaves-hátíðin hefur verið haldin frá árinu 1999.
Iceland Airwaves-hátíðin hefur verið haldin frá árinu 1999. mbl.is/Eggert

Sena Live hefur gengið frá kaupum á Iceland Airwaves-tónlistarhátíðinni af Icelandair og mun sjá um rekstur hennar héðan í frá. Hátíðin hefur verið haldin í Reykjavík árlega frá árinu 1999 og er komandi hátíð sú tuttugasta í röðinni. 

Í tilkynningu frá Icelandair kemur fram að stefnt sé að því að opna fyrir umsóknir fyrir tónlistarfólk, sem vill koma fram á næstu hátíð, 1. mars. Þá kemur einnig fram að samhliða sölunni hafi Icelandair samið við Senu um að Icelandair verði áfram helsti styrktaraðili hátíðarinnar og muni styðja við markaðssetningu hennar bæði innanlands og erlendis. 

Grím­ur Atla­son, sem var framkvæmdastjóri hátíðarinnar undanfarin ár, hætti fyrir um viku sem framkvæmdastjóri og sagði skilið við hátíðina. Kom það í kjölfar þess að greint var frá því að Sena ætti í viðræðum um að kaupa hátíðina.

Iceland Airwaves verður haldin dagana 7.-11. nóvember 2018 og er miðasala hafin.

ÚTÓN, útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar, mun áfram koma að ráðgjöf varðandi erlenda fjölmiðla og alþjóðlega fagaðila og sjá um ráðstefnuhluta hátíðarinnar og tengslamyndunarfundi þar sem íslenskum tónlistarmönnum gefst kostur á að bóka fundi með fulltrúum alþjóðlega tónlistargeirans sem sækja hátíðina, en á dagskrá ráðstefnunnar hafa einnig verið pallborðsumræður, fyrirlestrar og fleira efni tengt viðskiptum með tónlist. 

Í tilkynningunni er haft eftir Ísleifi Þórhallssyni, framkvæmdastjóra Senu, að fyrirtækið hafi miklar væntingar til samstarfsins með tónlistargeiranum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka