Mannréttindi intersex fólks: Ný nálgun til framtíðar nefnist málþing um mannréttindi intersex fólks á Íslandi sem fram fer á morgun frá kl. 12 til 16 í háskólabyggingunni Öskju í stofu 132. Intersex er hugtak yfir meðfæddan breytileika á líffræðilegum kyneinkennum.
Kitty Anderson, formaður Intersex Íslands, segir aðgerða þörf til að fulltryggja mannréttindi intersex fólks hér á landi. Hins vegar þokast málefni hópsins í rétta átt hér á landi í takt við þróun í öðrum löndum einkum á Norðurlöndum.
Þess má geta að árið 2015 varð Malta fyrst ríkja til að lögfesta líkamlega friðhelgi intersex fólks, þar með talið barna, og sambærileg vinna er hafin víðar í Evrópu, til dæmis í Belgíu, Bosníu og Hersegóvínu, Grikklandi, Noregi og á Íslandi.
Kitty bendir á að undanfarna hálfa öld hefur fólk með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni verið látið sæta róttækum og oft óafturkræfum inngripum s.s. skurðaðgerðum og hormónameðferðum til að laga kyneinkenni þeirra að væntingum um dæmigert útlit og form.
Oft eru inngripin framkvæmd á ungabörnum sem geta ekki tekið þátt í ákvörðuninni þrátt fyrir að bið myndi ekki stefna líkamlegri heilsu þeirra í hættu. Leyndarhyggja var viðtekin venja innan læknastéttarinnar og intersex fólki var ráðlagt að ræða ekki breytileika sinn. Á árum áður var fólki jafnvel ekki sagt frá eigin breytileika.
„Þessar aðgerðir hafa oft verið gerðar eingöngu á félagsfræðilegum grunni sem hægt er að flokka sem útlitslegar,“ segir Kitty. Hún bendir á að með aðgerðunum felist mikið inngrip og þær eru sársaukafullar. „Ef beitt er inngripi þarf það að þjóna tilgangi. Það þurfa að vera rannsóknir á þessu sviði en það eru engar rannsóknir sem styðja við að þær séu gerðar. Auk þess á stór hluti í vandræðum þegar búið er að framkvæma þær og ein aðgerð kallar oft á fleiri,” segir Kitty.
Hér á landi er til að mynda ekki hægt að kvarta yfir aðgerðum til embætti landlæknis sem eru eldri en 10 ára. Oft eru gerðar aðgerðir til dæmis á kynfærum þegar börn eru ung að aldri. Hins vegar hefur slíkum aðgerðum fækkað hér á landi.
Kitty bendir á að „stór hluti fólks sem er intersex vill ekki að það spyrjist út að það sé með ódæmigerð kyneinkenni,“ segir Kitty. Margir hafi ekki áttað sig á því að þeir séu intersex fyrr en við kynþroska og að þeir þroskast öðruvísi en aðrir. Aukin umræða um þessi málefni er alltaf til bóta því þöggun leysir engan vanda, segir Kitty.
Sérstakir gestir á málþinginu eru: Piet de Bruyn, skýrslugjafi Evrópuráðsins um réttindi hinsegin fólks og höfundur skýrslu ráðsins um mannréttindi intersex fólks, Ruth Baldacchino, formaður ILGA-World, alþjóðasamtaka hinsegin fólks og stjórnandi intersex mannréttindasjóðs Astraea – Réttlætissjóðs lesbía. Hán lék lykilhlutverk í setningu fremstu löggjafar í heimi um réttindi trans og intersex fólks sem var lögfest á Möltu árið 2015 og Laura Carter, rannsakandi og sérfræðingur í hinsegin málefnum hjáAmnesty International. Hún vann skýrslu Amnesty „First, Do No Harm“ um stöðu intersex fólks í heilbrigðiskerfum Danmerkur og Þýskalands.
Málþingið er ætlað öllum þeim er láta sig málefni intersex fólksvarða og sérstaklega málefni intersex barna. Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Ísland er fundastjóri.
Að málþinginu standa: Intersex Ísland – félag intersex fólks á Íslandi, Samtökin 78 – félag hinsegin fólks á Íslandi, Íslandsdeild Amnesty International og Mannréttindaskrifstofa Íslands.