Fyrst á vegi blaðamanns eru hjón frá Ítalíu með litla stúlku. „Við erum frá Ítalíu. En ég fæddist hér!“ segir Rósa Ýr Rancitelli sem hingað er komin ásamt eiginmanninum Alessandro Amadei og yngsta barni af þremur, Dorotheu Líf. „Mamma mín er íslensk og ég bjó hér til fimm ára aldurs. Ég tala líka smá íslensku!“ segir Rósa og hlær. „Við erum frá litlum bæ á austurströnd Ítalíu. Það er rétt hjá Rimini. Pabbi minn er ítalskur en hann kom hingað á leið til Bandaríkjanna en hann kynntist mömmu minni og endaði á að vera hér í tíu ár,“ segir hún en foreldrarnir búa á Ítalíu. Rósa vinnur í bókabúð og maður hennar er kokkur með áherslu á lífrænan mat.
„Ég kom núna því ég elska veturinn á Íslandi og við vildum heimsækja ömmu sem er 98 ára. Ég elska snjóinn og storma, við höfum ekki þannig á Ítalíu,“ segir Rósa sem dvaldi hér í tíu daga og sýndi eiginmanni og barni það helsta.
Alessandro segist kunna vel við Ísland um vetur og finnst ekkert of kalt. „Best kann ég að meta hversu allt er rólegt hér, fólkið er afslappaðra en á Ítalíu. Þetta er lítil borg og hægt að ganga um allt og borgin umvefur mann. Landslagið er líka einstakt,“ segir hann. „Og íslenskur himinn er allt öðruvísi.“
Blaðamaður spyr hvort það sé munur á íslenskum konum og ítölskum. „Þær íslensku eru fallegri,“ segir hann og þau skellihlæja.
New York-búarnir Rose Feuer, Harold Treiber og Sarene Shanus eru stödd í Rammagerðinni á Skólavörðustíg að versla þegar blaðamaður ákveður að trufla.
Spurð um ástæðu ferðarinnar svarar Sarene: „Við héldum að við myndum sjá norðurljósin, sem við höfum ekki enn séð. Og það að koma til Íslands var á allra óskalista. Við látum kuldann ekkert stöðva okkur, enda oft kalt í New York. En við héldum líka að landslagið yrði fallegt svona hulið snjó og að það yrði minna um ferðamenn, sem reyndist rétt. Þetta hefur verið stórkostlegt. Algjörlega. Að sjá víðáttuna og sjá sólina koma upp yfir landinu,“ segir hún.
„Og fólkið hér er mjög vingjarnlegt,“ skýtur Harold inn í.
„Við höfum ferðast um Suðurland, sáum svörtu ströndina og dvöldum í kringum Vík. Svo fórum við gullna hringinn og líka í leynilega lónið,“ segja þau en blaðamaður hefur ekki hugmynd um hvar það er. „Það er líka leynilegt,“ segir Harold og brosir.
Fjórar vinkonur frá Kína eru staddar við styttuna af Leifi Eiríkssyni hjá Hallgrímskirkju þegar blaðamann ber að garði og truflar þær við myndatökur. Þær eru til í spjall og byrja á að segja frá hvaða borg þær eru en það reynist erfitt að skilja kínverskuna. Blaðamanni heyrist þær segja Conshong. Þær gefast upp á að reyna að koma þessu til skila og láta nægja að segja að þær séu frá Suður-Kína. Man Chen, Suki Chen, Suyi Zhao og Chinki Chen vinna allar við hönnun af einhverju tagi og kynntust í gegnum vinnuna. Þær ákváðu að skella sér í ferð til Norðurlanda.
„Við erum hér í fyrsta sinn. Við komum vegna náttúrunnar, sem er stórkostleg, og norðurljósanna,“ segja þær. Þær kunna vel að meta íslenska veturinn. „Það er aldrei snjór í Kína, þar er heitt, alla vega þar sem við búum. Við vissum eitthvað um Ísland, við lásum okkur til á netinu,“ segja þær.
Það sem kom þeim mest á óvart er víðáttan. „Við sjáum fjöllin frá borginni. Og maður sér langt,“ segir Chinki.
Vinkonurnar með löngu nöfnin, þær Ainhoa Arriero Castano og Beatriz Cabezas Rodriguez, eru frá bæ nálægt Madríd á Spáni. Það kemur fljótt í ljós að önnur þeirra er hér skiptinemi.
„Ég er að læra hérna líffræði í gegnum Erasmus, ég kom hingað í ágúst. Ég ætla að vera hér í ár,“ segir Ainhoa og sparar ekki stóru orðin. „Ég elska að vera hérna, ég á engin orð. Það er stórkostlegt og allt öðruvísi en á Spáni, bæði menningin og landslagið,“ segir hún. „Ég er orðin vön kuldanum,“ segir hún brosandi.
Vinkona hennar, Beatriz, er einnig Erasmus-nemandi, en í Belgíu. Hún kom hingað að heimsækja vinkonu sína.
Ungu konurnar hafa skoðun á íslenskum karlmönnum. „Þeir eru mjög ólíkir þeim spænsku!“ segir Ainhoa. „Þeir eru svo kaldir hér, þeir halda sig í fjarlægð. Ég er vön að heilsa öllum með faðmlagi og tveimur kossum en hér heilsast allir með handabandi. Nú er ég að venjast því.“
Við kveðjumst og þessar brosmildu vinkonur halda á braut út í kuldann, alsælar.
Ítarlegri viðtöl eru við ferðamenn í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.