Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, og Lilja Alfreðsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og mennta- og menningarmálaráðherra, segja báðar að gögn um greiðslur til þingmanna og kostnað sem greiddur væri af ríkinu fyrir störf þeirra ættu að vera upp á borðinu.
Rætt var um aksturspeninga þingmanna og annan kostnað þeirra í þættinum Víglínunni á Vísi í dag og sagði Oddný að í fyrra hafi hún verið með skráðan um 17 þúsund kílómetra akstur, þar af um 16 þúsund kílómetra í kjördæminu sínu, Suðurkjördæmi. Hún hafi fengið tölvupóst frá skrifstofu Alþingis í nóvember þar sem vísað var til þess að þingmenn sem ækju svona mikið ættu frekar að vera á bílaleigubíl.
Oddný sagði að þrátt fyrir það hafi hún nú í byrjun árs ákveðið að vera á eigin bíl þar sem um mikla ófærðartíð væri að ræða. Þá vildi hún frekar geta komist yfir á eigin jeppa.
Lilja sagði að það þyrfti að gera sér grein fyrir því að mikill munur væri á milli landsbyggðarkjördæma og kjördæma á höfuðborgarsvæðinu. Hægt væri að fara á fundi allsstaðar í kjördæminu á tveimur dögum, en fyrir utan höfuðborgarsvæðið tæki það mun lengri tíma og ferðast þyrfti miklu meira.
Hún sagði hins vegar að gera þyrfti grein fyrir öllum þessum kostnaði. Með því að upplýsa ekki og nafngreina þá sem fengju kostnaðinn endurgreiddan væri verið að „búa til óþarfa vantraust og tortryggni.“
Oddný tók undir þetta og vildi sjá þessi mál öll upp á borðinu. Hún tók einnig fram að horfa þyrfti á málið heildstætt. Þannig væri hún búsett í Garði á Reykjanesi og æki í bæinn á þingfundi. Henni stæði til boða að leigja í Reykjavík og fá greitt frá ríkinu vegna þess. Það væri hins vegar mun dýrara fyrir skattgreiðendur en aksturspeningur.
Lilja sagði að það sem þyrfti að koma frá stjórnendum á þinginu væru skýr tilmæli um hvernig ætti að haga þessum greiðslum og akstri. Hún ítrekaði samt á ný að horfa þyrfti vel til þess munar sem væri á kjördæmum og aksturskostnaði á landsbyggðinni áður en slíkt væri samþykkt.