Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, telur að það sé öllum þingmönnum hollt að gera ráð fyrir að allt sem þeir gera sé opinbert. Þetta er meðal þess sem kom fram í máli hans í Silfrinu á Rúv í dag þar sem hann var gestur ásamt þremur öðrum þingmönnum.
Aksturskostnaður þingmanna varð umræðuefni þáttarins en undanfarið hefur verið fjallað um kostnað þingmanna við akstur sem Alþingi endurgreiðir. Kostnaðurinn í fyrra nam rúmlega 29 milljónum króna og fékk Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hæstan endurgreiddan kostnað, eða 4,6 milljónir króna.
Helgi Hrafn gagnrýndi að það sé hlutverk forsætisnefndar Alþingis að fjalla um kjör og kostnað þingmanna, meðal annars þegar kemur að aksturskostnaði. Hann segir að slíkar ákvarðanir eigi að vera teknar utan þings.
„Mig langar ekki að svara þessum spurningum. Ég er vanhæfur til þess, skilurðu. Þú ert að spyrja mig um mín kjör. Ég get ekki svarað því og á ekki að svara því, það á að vera einhver annar aðili sem á að gera það,“ sagði hann í viðtali við Fanneyju Birnu Jónsdóttur, stjórnanda Silfursins.
Helgi Hrafn segir að gegnsæið sem hefur hingað til verið iðkað á þingi snúist að því að reglurnar séu opinberar, til dæmis með því að þingmenn fá 15% álag fyrir að gegna formennsku í nefnd og 50% álag fyrir að vera formaður flokks í stjórnarandstöðu. „En það vantar að hægt sé að greina þetta niður á einstaka þingmenn og sumum þingmönnum finnst það ef til vill óþægilegt.“
Helgi Hrafn leggur til að í kjölfar umræðu síðustu viku að halda ætti þessum upplýsingum eins gegnsæjum og opinberum og mögulegt er. „Fyrst og fremst er mikilvægt að þetta sé opinbert og sundurgreinanlegt niður á einstaka þingmenn.“
Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, tók undir orð Helga Hrafns. „Það er vilji allra þingmanna að þetta sé opinbert.“ Það gerði Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, einnig sem sagði að mikilvægt væri að „allt svona sé uppi á borðum.“ Hanna Katrín Friðriksdóttir, þingmaður Viðreisnar, var einnig gestur í Silfrinu og sagði hún að það ætti að vera skýrt mál að það sem þingmenn gera í sínu einkalífi eigi ekki að flokkast undir kostnað sem þingið endurgreiðir.
Forsætisnefnd Alþingis mun koma saman á fundi á morgun þar sem upplýsingar um starfskjör alþingismanna verða teknar til umræðu.
Frétt mbl.is: Forsætisnefnd fundar um starfskjör alþingmanna
Oddný vonast til að með fundinum fáist betri leikreglur fyrir þingmenn til að fara eftir. „Við þingmenn eigum lítið annað en traust kjósenda á okkur og að þau trúi að við séum í rauninni heiðarlegt og gott fólk. Þessi umræða hefur kynt undir annað og þess vegna hefur hún verið óþægileg. En hún er gagnleg að því leyti að væntanlega verður hún til þess að reglurnar verði skýrari og gagnsærri.“