„Við ætlum ekki að vera fólkið sem eyðileggur Airwaves“

Frá Iceland Airwaves í Vodafone-höllinni árið 2015.
Frá Iceland Airwaves í Vodafone-höllinni árið 2015. mbl.is/Styrmir

Nýir eigendur Iceland Airwaves hátíðarinnar segjast ætla að finna hjarta hátíðarinnar, fara aftur í ræturnar og aðgreina hana meira frá öðrum tónlistarhátíðum með því að horfa á tónlistarmenn morgundagsins en færa sig frá því að fá stærri bönd sem eru hvað vinsælust í dag. Samhliða því þarf að taka til í rekstri hátíðarinnar, endurmeta fyrirkomulag utandagskrárinnar (e. off-venue) og íhuga hvort hátíðin gangi upp í Hörpu.

Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Senu live, sem keypti nú í vikunni hátíðina af fyrrverandi rekstraraðila og vörumerki hátíðarinnar og lén frá Icelandair, segir í samtali við mbl.is að nýir eigendur geri sér skýrt grein fyrir því að þeir sem taki við Airwaves taki við skyldum og kvöðum sem fylgi hátíðinni.

Hann vísar til þess að hátíðin hafi upphaflega byrjað sem einskonar kynningarhátíð fyrir íslenska tónlistarmenn með það fyrir augum að laða erlenda blaðamenn til landsins og búa til brú fyrir íslenskt tónlistarfólk til útlanda. Það verði áfram stefna hátíðarinnar og hafi verið eitt af því sem nýir eigendur ræddu við helstu styrktaraðila áður en gengið var að kaupunum. „Við tökum þessar skyldur alvarlega,“ segir Ísleifur og bætir við að samstarfsaðilarnir hafi verið jákvæðir gagnvart þessum grunnáherslum.

Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Senu Live.
Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Senu Live. mbl.is/Eggert

„Við viljum skoða af hverju hátíðin fór af stað, hvað hún er í grunninn og hver tilgangur hennar sé. Við viljum aðgreina Airwaves frá öðrum hátíðum og fara „back to basis“. Við sjáum ekki að Airwaves eigi að vera að elta stóru böndin út í heimi heldur er þetta hátíð fyrir „up and coming-bönd“ og indí-bönd,“ segir Ísleifur. Hann tekur þó fram að ekki sé stefnt að því að aðeins óþekkt bönd komi fram á hátíðinni. „Það kemur alveg til greina að bóka þekkt atriði en þau munu þá alltaf þurfa að passa inn í grunn hugmyndafræði hátíðarinnar,“ segir hann.

„Airwaves á að vera hátíð þar sem þú getur mætt, þó þú þekkir ekki viðkomandi band, en atriðið er gott. Þú átt að sjá böndin sem slá í gegn eftir eitt, tvö eða þrjú ár,“ segir hann, en það hefur lengi verið stefna hátíðarinnar. Hann bætir þó við að það sé auðvelt að segja þetta en erfitt að framkvæma. „En þetta er verðugt takmark.“

Mumford & Sons léku í Vodafone höllinni í fyrra á …
Mumford & Sons léku í Vodafone höllinni í fyrra á Airwaves. Ísleifur segir Airwaves ekki eiga að elta stærstu nöfnin, heldur sveitir sem líklegar séu til vinsælda seinna meir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Iceland Airwaves heldur upp á 20 ára afmæli sitt í ár, en hátíðin hefur skipað fastan sess í tónlistarlífi landans allar götur síðan. Ísleifur segist vel finna fyrir þeirri ábyrgð að taka við hátíðinni. „Mér finnst eins og maður sé að taka við litlu Þjóðleikhúsi eða Borgarleikhúsi. Airwaves er rótgróin íslensk menningarstofnun sem við vitum og finnum strax að öllum þykir vænt um,“ segir Ísleifur. Hann tekur fram að þeim sem nú standi á bak við reksturinn sé annt um það sem hafi verið byggt upp og vilji að hátíðin haldi þeirri stöðu meðal annars hjá erlendum umboðsmönnum og bransafólki. „Við ætlum ekki að vera fólkið sem eyðileggur Airwaves,“ segir Ísleifur ákveðinn.

Undanfarin ár hefur hátíðin glímt við fjárhagsvanda, en árið 2016 var 57 milljóna tap af henni. Samkvæmt frétt Rúv var einnig tap af rekstri hennar í fyrra, þótt það hafi verið mun minna. Hefur miðasala meðal annars verið á niðurleið undanfarin ár.

Ísleifur segir að þrátt fyrir að síðustu ár hafi verið erfið stefni núverandi eigendur ekki á að minnka hana. „Við þurfum öruggelga að skera niður hér og þar, en við erum samt sem áður ekki að tala um að fólk eigi að finna fyrir að hátíðin sé að minnka, heldur að hún verði meira spennandi og hitti betur í mark hjá þeim sem vilja stunda Airwaves,“ segir hann. „Þetta snýst ekki um að bóka sem flesta, heldur að bóka vel. Það er krefjandi verkefni að koma þessu í lag, því það er óhjákvæmilegt að taka allt skipulag til gagngerrar endurskoðunar, til að ná tökum á rekstrinum, en á sama tíma viljum reyna auka miðasölun og halda hátíð sem er öllum til sóma í sátt og samlyndi við bransann og alla samstasrfsaðila. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að þetta verður ekki auðvelt, en við erum bjartsýn og trúum því að þetta sé hægt.“

Reykjavíkurdætur á Airwaves.
Reykjavíkurdætur á Airwaves. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sena live ehf. mun stofna nýtt dótturfélag, í 100% eigu Senu, sem mun reka hátíðina og eiga vörumerkið. Hingað til hefur reksturinn verið í sérstöku félagi, en Icelandair, aðalstyrktaraðili hátíðarinnar frá upphafi, hefur átt vörumerkið og lénið. Ísleifur segir að eftir á að hyggja sé hafi þetta verið ákveðin flækja, en nú sé reksturinn og eign vörumerkisins komin á einn stað.

Ísleifur tekur fram að skuldamál hátíðarinnar, sem nú er verið að semja um samkvæmt frétt Rúv, tengist nýju rekstrarfélagi ekki neitt. „Við erum búin að kaupa eignirnar á ríflegu verði,“ segir hann og vísar til þess að söluverðið eigi ekki að vekja upp neinar spurningar, þegar eldra félagið gerir upp málin við sína lánadrottna. Kaupverðið er þó trúnaðarmál og segist Ísleifur ekki geta gefið það upp.

Að sögn Ísleifs hefur skipting á milli íslenskra og erlendra tónlistaratriða verið í kringum 160 á móti 40, íslensku böndunum í hag. Hann segir að eins og er sé ekki horft til þess að breyta þessum hlutföllum en það sé þó líklegt að samkvæmt nýrri stefnu verði jafnvel enn meiri áhersla á íslenska hlutann.

Fjölmargar íslenskar sveitir hafa komið fram á Airwaves í gegnum …
Fjölmargar íslenskar sveitir hafa komið fram á Airwaves í gegnum tíðina. FM Belfast, sem hér sést í Silfurbergi í Hörpu árið 2016, hefur oft verið á dagskrá hátíðarinnar. Ísleifur er ekki viss um framtíð Airwaves í Hörpu. Freyja Gylfa

Ísleifur verður hátíðarstjóri Airwaves á þessu ári, en hann segir að til framtíðar sjái hann fyrir sér að geta ráðið einhvern í það starf til frambúðar. Þá horfi þeir sem komi að kaupunum til þess að koma upp einhverskonar tónlistarráði eða listrænum ráðunautum sem komi að því að bóka listamenn á hátíðina. „Það að bóka fyrir Airwaves verður alltaf miklu stærra en að ein manneskja geti gert það,“ segir hann og tekur fram að geðþótti hans muni ekki einn ráða því hvaða bönd komi að hátíðinni í ár. „Ég reyni að fylgjast með, en ég reyni ekki að telja sjálum mér trú um ég viti nákvæmlega hvað 20 ára fólk í dag er að hlusta á.“

Framundan hjá nýjum eigendum er mikil vinna við að ræða við samstarfsaðila, staði sem halda utan um utandagskrána og staði þar sem hin eiginlega hátíð fer fram. Þá segir Ísleifur að þeir muni einnig ræða við fjölda fólks sem hefur komið að hátíðinni undanfarin ár og sem starfi með henni til að þurfa ekki að finna upp hjólið yfir hvað virkar og hvað ekki.

Off-venue viðburðir hafa verið í mikilli sókn undanfarin ár og …
Off-venue viðburðir hafa verið í mikilli sókn undanfarin ár og voru um 50 staðir með slíka tónleika í fyrra. mbl.is/Styrmir

Þannig áformar hann að rætt verði við Hörpu, sem meðal annars var aðaltónleikastaðurinn fyrir tveimur árum, en að hann sé þó ekkert endilega viss um að það sé framtíðarheimili Airwaves. „Ég á erfitt að sjá fyrir mér að Airwaves gangi upp þar. Harpa er „fancy“ tónleikastaður, rosalega flottur en það er mun dýrara að vera þar en annarsstaðar,“ segir hann og tekur sérstaklega fram að hann sé ekkert að skammast yfir verðmiða staðarins, þessar áherslur passi hins vegar ekki alveg við rekstrarmódel Airwaves. „Það væri samt alveg gaman að ná lendingu þannig að Airwaves væri að einhverju leyti í Hörpu en við þurfum einfaldlega að hitta þau fljótlega og ræða málin,“ segir Ísleifur og lokar ekki á að það verði einhver tenging á milli þessa stærsta tónleikastaðar landsins og hátíðarinnar.

Eins og fyrr segir hefur sala miða á hátíðina dregist saman síðustu ár. Ísleifur segir að ein ástæða þess geti tengst sprengingu í utandagskrárviðburðum, en þeir hafi farið fram á 50 stöðum um borgina í fyrra. Til samanburðar var dagskrá hátíðarinnar á 13 stöðum. Segir hann vandamálið vera að hátíðin búi til fullt af tekjum fyrir fjölmarga aðila með þessu, en að hátíðin sjálf fái lítið af þessum tekjum og sitji uppi með kostnaðinn. Þannig sé búið að ala upp hjá mörgum að þeir geti tekið helgina með trompi án þess að kaupa armband. „Við þurfum að skoða þetta með stöðunum,“ segir Ísleifur, en meðal annars segir hann að skoða þurfi hvort fækka eigi slíkum utandagskrárstöðum en auka samstarfið við þá sem haldi slíka viðburði. „Þarna þarf að vera sanngjarnt samband á milli,“ segir hann.

Oft er mikil nálægt milli áhorfenda og flytjenda á minni …
Oft er mikil nálægt milli áhorfenda og flytjenda á minni stöðunum.

Sjálfur hefur Ísleifur mætt í fjölmörg skipti á Airwaves og segist alltaf vera spenntur fyrir hátíðinni. „Ég hef alltaf mætt þegar ég er á landinu,“ segir hann og bætir við að hann finni spennuna alltaf byggjast upp í vikunni þegar hátíðin hefst. „Það er erfitt að vera heima og horfa á sjónvarpið þegar Airwaves er að byrja,“ segir hann hlægjandi.

Sena Live hefur undanfarin ár verið stórtækt í að flytja inn erlendar stórstjörnur. Þar á meðal Justin Timberlake og Justin Bieber. En með því að taka yfir Airwaves, mun fyrirtækið hafa svigrúm til að halda slíka stórtónleika í framtíðinni? Ísleifur svarar því hlægjandi til að Sena Live sé síður en svo að draga saman seglin þegar komi að öðrum viðburðum. „En fram yfir næstu Airwaves verður sú hátíð í forgrunni. Aðalverkefnið þetta árið er að ná tökum á henni,“ segir hann. Því verði fyrirtækið líklega ekki með neina risatónleika á þessu ári, en að búast megi við einhverju á því næsta.

Mugison sést hér rokka á Iceland Airwaves.
Mugison sést hér rokka á Iceland Airwaves. mbl.is/Árni Torfason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka