Umskurður drengja þegar refsiverður?

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og hæstaréttarlögmaður, segir á Facebook-síðu sinni í dag að hann viti ekki til annars en að umskurður drengja sé þegar refsiverður hér á landi samkvæmt almennum hegningarlögum.

„Mörgum finnst skrítið, að ég sem hef skoðun á öllu og ekki síst á því sem ég hef ekki vit á, skuli ekki hafa tjáð mig um umskurðarfrumvarpið. Ég er í eðli mínu ekki mikill bannstefnumaður. Fram hafa komið ýmis góð rök með og á móti þessu frumvarpi,“ segir Brynjar og vísar þar til frumvarps átta þingmanna þess efnis að umskurður barna almennt verði bannaður í íslenskum lögum en ekki aðeins stúlkna.

Brynjar segist í samtali við mbl.is ekki vera með þessu að taka afstöðu með eða á móti umskurði heldur fyrst og fremst einfaldlega að benda á ákveðinn lögfræðilegan vinkil í málinu. Hann tekur dæmi um tólf ára dreng sem væri umskorinn að kröfu foreldra sinna og kærði það. „Ég held að dómstólar kæmust varla hjá því að líta á það sem brot.“

Samkvæmt almennum hegningarlögum er umskurður stúlkna og kvenna skilgreindur sem líkamsárás en þar segir í 218. grein a.: „Hver sem með líkamsárás veldur tjóni á líkama eða heilsu stúlkubarns eða konu með því að fjarlægja kynfæri hennar að hluta eða öllu leyti skal sæta fangelsi allt að 6 árum.“ Frumvarpið gerir ráð fyrir að talað verði um börn almennt í greininni.

Brynjar bendir á að umrætt ákvæði kveði í raun ekki á um það að líkamsárásir séu refsiverðar, enda sé kveðið á um að slíkar árásir séu refsiverðar almennt séð annars staðar í lögunum, heldur ákveðna refsingu fyrir þessa ákveðnu tegund af líkamsárás.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka