Fljótandi ís olli ökumönnum vanda sem óku um þjóðveginn, rétt vestan við Jökulsárlón í dag.
Einn þeirra var Guðmundur Baldursson rútubílstjóri sem var að aka með 47 bandaríska ferðamenn frá Vík í Mýrdal að Jökulsárlóni er hann náði atvikinu á myndband. Einnig fylgir með fréttinni myndband sem einn ferðamannanna í rútunni tók.
Hann kveðst aldrei áður hafa séð svona mikinn ís á þjóðvegum landsins. „Snjóbráðnunin var svo gífurlega mikil að það safnaðist stöðuvatn alls staðar fyrir framan veginn og á söndunum líka,“ segir hann og nefnir Mýrdalssand sem dæmi.
Guðmundur bætir við að erlendur ferðamaður á bílaleigubíl hafi stöðvað bíl sinn og byrjað að fjarlægja ísinn af veginum en næsti klaki hafi þá komið undir eins. Ferðamaðurinn hafi stöðvað umferðina með athæfi sínu sem varð til þess að Guðmundur rak hann í burtu af veginum.
Í bakaleiðinni frá lóninu var ísinn á veginum í mikilli rénun um hálftíma síðar.
Guðmundur segir atvikið hafa orðið bandarísku ferðamönnunum í rútunni afar eftirminnilegt. „Jökulsárlónið var ekki aðalmálið í þessari stuttu ferð. Það stóð upp úr að lenda í þessu ævintýri.“