Skiptir máli fyrir almenning og dómstóla

Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður og verjandi Guðjóns Skarphéðinssonar.
Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður og verjandi Guðjóns Skarphéðinssonar.

„Þessi niðurstaða kom ekki mjög á óvart. Sérstaklega eftir að skýrslur endurupptökunefndar lágu fyrir að settur ríkissaksóknari skyldi fara að þeim niðurstöðum og gera kröfu um sýknu af þessum ákærum á mannshvörfunum tveimur,“ segir Ragnar Aðalsteinsson verjandi Guðjóns Skarphéðinssonar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. 

Guðjón hlaut 10 ára fangelsisdóm í Hæstarétti árið 1980 fyrir aðild sína að málinu. 

Davíð Þór Björg­vins­son, full­trúi ákæru­valds­ins í end­urupp­töku Guðmund­ar- og Geirfinns­máls­ins og sett­ur rík­is­sak­sókn­ari, krefst sýknu að öllu leyti í mál­inu. Davíð Þór, skilaði grein­ar­gerð sinni vegna máls­ins til Hæsta­rétt­ar í dag.

Ragnar bendir á að margt hafi breyst í réttarkerfinu á þeim tíma frá því hann krafðist endurupptöku á málinu á síðustu öld. Þar á meðal hafi skilyrði til endurupptöku mála verið rýmkuð, starfshópur hafi verið skipaður þar sem álit réttarsálfræðinga hafi skipt miklu máli og endurupptökunefndin hafi skilað góðri vinnu og safnað ítarlegum gögnum.  

Skiptir máli fyrir almenning og dómstólana

„Þetta hlaut að leiða til niðurstöðu sem ég komst að árið 1996,“ segir Ragnar og bætir við: „Þetta skiptir miklu máli bæði fyrir almenning í landinu sem hefur aldrei gleymt þessu máli. Þetta skiptir líka máli fyrir dómstólana þó það sé aldrei hægt að leiðrétta slík mistök en það er þó hægt að gera þá bragarbót sem myndi felast í því að kveða upp sýknudóma.“ 

Að sögn Ragnars er Guðjón skjólstæðingur hans ánægður með niðurstöðuna. „Hann tekur þessu með jafnaðargeði eins og öllu öðru,“ segir Ragnar. 

Næstu skref eru þau að verjendur fá tíma til að skila inn greinargerð til Hæstaréttar. Ragnar segist taka undir kröfurnar en er hins vegar hvorki sammála öllu sem kemur fram hjá settum ríkissaksóknara né hjá endurupptökunefndinni.

„Það skiptir töluverðu máli hvernig forsendur Hæstaréttar verða ef þar að kemur. Ég mun leitast við að koma mínum sjónarmiðum til skila sem ég tel að skipti töluverðu máli fyrir skjólstæðing minn svo útkoman verði sem réttust“, segir Ragnar um greinargerðina sem hann mun skila inn.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert