Hælisleitandi sem var sendur af landi brott í fyrradag er 22 ára en ekki 18 ára eins og komið hefur fram áður. Þetta segir Útlendingastofnun í tilkynningu á vefsíðu sinni, en vísað er til þess að yfirvöld í heimalandi mannsins, Marokkó, hafi staðfest auðkenni hans og þar með aldur hans. Er hann fæddur árið 1996 og var því ekki fylgdarlaust ungmenni þegar hann kom hingað til lands árið 2016, að því er segir í tilkynningunni.
Maðurinn hafði marg oft reynt að komast um borð í skip á leið til Kanada, en eftir nokkrar slíkar tilraunir var hann færður í gæsluvarðhald. Lengst af dvaldi hann hér á landi í umsjón barnaverndaryfirvalda en hann hafði fengið synjun um dvalarleyfi hérlendis.
Varð hann meðal annars fyrir árás samfanga í íþróttahúsi Litla-Hrauns í síðasta mánuði.
Í gær sagði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, á Facebook-síðu sinni frá málinu. Sagði hún að hvorki lögmaður né sá sem annaðist leyfi hans til dvalar hafi verið látnir vita um brottvísunina. Hafi hann beðið niðurstöðu kærunefndar útlendingamála við beiðni um endurupptöku máls síns.
Útlendingastofnun segir hins vegar í tilkynningu sinni að í máli mannsins hafi legið fyrir endanleg niðurstaða á stjórnsýslustigi um að honum bæri að yfirgefa landið og því hafi stofnunin óskað eftir flutningi hans með aðstoð ríkislögreglustjóra. Þá segir að öllum hluteigandi hafi verið ljóst að flutningur hans yrði framkvæmdur á næstunni. Þá hafi manninum verið boðið að haft yrði samband við verjanda hans eða aðra þegar hann var upplýstur um ferðaáætlunina, en hann hafi ekki óskað eftir að haft yrði samband við neinn fyrir sína hönd. „Hann hafði aðgang að síma til að geta sjálfur haft samband við þá sem hann vildi,“ segir í tilkynningu stofnunarinnar.
Bent er á að talsmaður mannsins hafi óskað eftir því við kærunefnd útlendingamála að málið yrði endurupptekið, en nefndin hafi þá þegar hafnað tveimur beiðnum mannsins um endurupptöku. Þá sé í reglugerð um útlendinga skýrt tekið fram að beiðni um endurupptöku fresti ekki réttaráhrifum fyrirliggjandi ákvörðunar. „. Fullyrðingar í fjölmiðlum um að það hafi verið venjan hingað til að beiðni um endurupptöku fresti framkvæmd flutnings eru rangar,“ segir i tilkynningunni.