Ólöf Ragnarsdóttir
Landsréttur úrskurðaði rétt í þessu að kröfu þess efnis að Arnfríður Einarsdóttir víki sæti dómara í máli umbjóðanda Vilhjálms H. Vilhjálmssonar er hafnað.
Arnfríður sjálf, ásamt tveimur öðrum Landsréttardómurum, kvað upp úrskurðinn. Arnfríður kvað upp úrskurðinn og sagði í framhaldi að nú lægi fyrir að taka ákvörðun um framhald málsins. Þá tók til máls Sveinn Andri Sveinsson, fyrir hönd Vilhjálms sem var fjarverandi, og sagði hann Viljálm taka sér frest til þess að taka ákvörðun.
Dómarar málsins meta sjálfir hæfi sitt, en auk Arnfríðar voru það þeir Jóhannes Sigurðsson og Þorgeir Ingi Njálsson. Arnfríður er einn þeirra fjögurra dómara við Landsrétt sem skipaðir voru af Sigríði Á. Andersen án þess að hafa verið á meðal fimmtán efstu samkvæmt mati hæfnisnefndar.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður vill að Arnfríður víki í máli umbjóðanda hans sökum þess að hún sé ein af fjórum dómurum Landsréttar sem voru ekki á lista sérstakrar hæfnisnefndar en dómsmálaráðherra lagði til að yrðu skipaðir. Skipan hennar hafi því gefið umbjóðanda Vilhjálms efasemdir um sjálfstæði dómstólsins.
Verklag Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra við skipan dómara hafi ekki verið í samræmi við lög og reglur og því væri eðlilegt að umbjóðandi hans hefði efasemdir, sagði Vilhjálmur þegar hann gerði grein fyrir kröfunni fyrr í þessum mánuði. Ásýnd Landsréttar væri því ekki sú að dómurinn væri sjálfstæður.