Landsréttur metur Arnfríði hæfa

Jón H. B. Snorrason saksóknari og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður.
Jón H. B. Snorrason saksóknari og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður. mbl.is/Árni Sæberg

Landsréttur úrskurðaði rétt í þessu að kröfu þess efnis að Arnfríður Einarsdóttir víki sæti dómara í máli umbjóðanda Vilhjálms H. Vilhjálmssonar er hafnað. 

Arnfríður sjálf, ásamt tveimur öðrum Landsréttardómurum, kvað upp úrskurðinn. Arnfríður kvað upp úrskurðinn og sagði í framhaldi að nú lægi fyrir að taka ákvörðun um framhald málsins. Þá tók til máls Sveinn Andri Sveinsson, fyrir hönd Vilhjálms sem var fjarverandi, og sagði hann Viljálm taka sér frest til þess að taka ákvörðun.

Dóm­ar­ar máls­ins meta sjálf­ir hæfi sitt, en auk Arn­fríðar voru það þeir Jó­hann­es Sig­urðsson og Þor­geir Ingi Njáls­son. Arn­fríður er einn þeirra fjög­urra dóm­ara við Lands­rétt sem skipaðir voru af Sig­ríði Á. And­er­sen án þess að hafa verið á meðal fimmtán efstu samkvæmt mati hæfn­is­nefnd­ar.

Efasemdir um sjálfstæði Landsréttar

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður vill að Arnfríður víki í máli umbjóðanda hans sökum þess að hún sé ein af fjór­um dómur­um Lands­rétt­ar sem voru ekki á lista sér­stakr­ar hæfn­is­nefnd­ar en dóms­málaráðherra lagði til að yrðu skipaðir. Skipan hennar hafi því gef­ið um­bjóðanda Vil­hjálms efa­semd­ir um sjálf­stæði dóm­stóls­ins.

Verklag Sig­ríðar Á. And­er­sen dóms­málaráðherra við skip­an dóm­ara hafi ekki verið í sam­ræmi við lög og regl­ur og því væri eðli­legt að um­bjóðandi hans hefði efa­semd­ir, sagði Vilhjálmur þegar hann gerði grein fyrir kröfunni fyrr í þessum mánuði. Ásýnd Lands­rétt­ar væri því ekki sú að dóm­ur­inn væri sjálf­stæður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert