Telur siðareglur hafa verið brotnar

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur sent forsætisnefnd Alþingis erindi þar sem hann óskar formlega eftir því að nefndin taki til umfjöllunar hvort siðareglur alþingismanna hafi verið brotnar.

Í erindinu óskar hann einnig eftir því að nefndin taki til umfjöllunar hvort skrifstofa og skrifstofustjóri Alþingis hafi vanrækt skyldur sínar varðandi eftirlit með endurgreiðslum til þingmanna. Þá óskar Björn þess sérstaklega að forsætisnefnd taki rökstudda afstöðu til eigin hæfis til þess að koma að þeirri athugun sem Björn óskar eftir með erindi sínu.

Verið að misnota aksturskostnað

Í erindinu spyr Björn um aksturskostnað og í samtali við mbl.is segist hann gera það því orðrómur sé um að verið sé að misnota endurgreiðslu hans. Hann telur að tiltölulega augljóst sé að siðareglur hafi verið brotnar að einhverju leyti en ekki geta sagt til um hverjir það eru sem þar eigi í hlut. „Það að grunurinn sé til staðar er slæmt líka og ég vil losna við gruninn og fá úr skorið hvort það sé satt eða ekki,“ segir Björn.

Björn óskar eftir að kannað verði hvort siðareglur hafi verið brotnar samkvæmt því ferli sem finna má í 16. gr. siðareglanna og hvort skrifstofa og skrifstofustjóri Alþingis hafi vanrækt skyldur í ljósi 11. gr. laga um þingsköp. 

Í erindi Björns segir meðal annars: „Um endurgreiðslu ferðakostnaðar þingmanna er fjallað í 7. gr. þingfararkaupslaganna. Greint er á milli ferðalaga innan kjördæmis og milli heimils og Reykjavíkur (1. mgr. 7. gr.). Fjallað er nánar um endurgreiðslu ferðakostnaðar í 4.–5. gr. reglna forsætisnefndar og í 6. gr. þeirra um tilhögun á greiðslu ferðakostnaðar, en sú grein hefur einkum verið til umfjöllunar. Skv. 16. gr. þingfararkaupslaganna er gert ráð fyrir því að skrifstofa Alþingis úrskurði um reikninga þá sem alþingismanni skulu endurgreiddir skv. lögunum.“

Enn fremur kemur fram í erindi Björns: „Skrifstofa Alþingis hefur ekki talið það vera í verkahring sínum að leggja mat á það hvort þingmaður á erindi á fund sem hann er til dæmis boðaður á eða hvort rétt hafi verið að hann boðaði til fundar. Slíkt verður að vera í höndum þingmannsins sjálfs. Telur undirritaður að þessi túlkun skrifstofustjóra Alþingis sé í andstöðu við túlkun lagaskrifstofu Alþingis á lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert