Andlát: Ólöf Pálsdóttir myndhöggvari

Ólöf Pálsdóttir myndhöggvari við höggmynd sína „Tónlistarmaðurinn“.
Ólöf Pálsdóttir myndhöggvari við höggmynd sína „Tónlistarmaðurinn“. Ljósmynd/Aðsend

Ólöf Pálsdóttir myndhöggvari, heiðursfélagi í Konunglega breska myndhöggvarafélaginu, lést miðvikudaginn 21. febrúar, 97 ára að aldri.

Ólöf Pálsdóttir fæddist í Reykjavík 14. apríl 1920. Ólöf var dóttir Páls Ólafssonar frá Hjarðarholti, framkvæmdastjóra og ræðismanns, og Hildar Stefánsdóttur frá Auðkúlu. Hún nam við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn árin 1949-1955 hjá prófessorunum Aksel Jörgensen og Utzon Frank. Hún útskráðist þaðan með gullverðlaun fyrir verk sitt „Sonur“ sem stendur nú í Hljómskálagarðinum. Frekara nám stundaði hún í Kaíró árið 1954 hjá prófessor Wissa Wassef og 1957 í Róm hjá prófessor Fazzini.

Ólöf sýndi og seldi verk víða um heim, þar á meðal opinberum aðilum. Höggmynd hennar, „Tónlistarmaðurinn“, af sellóleikaranum Erling Blöndal Bengtsson, stendur við Hörpu. Ólöf var einn af stofnendum listamannasamtakanna „Den Nordiske“ og hélt sýningar í Kettle’s Yard Museum við Cambridge-háskóla og víðar í Bretlandi. Einnig hélt hún sýningar í Danmörku, Færeyjum, Frakklandi og Þýskalandi. Ólöf var sæmd íslensku fálkaorðunni árið 1970.

Ólöf kvæntist Sigurði Bjarnasyni frá Vigur, fyrrverandi alþingismanni, ritstjóra Morgunblaðsins og síðar sendiherra. Þau hjón eignuðust tvö börn, Hildi Helgu og Ólaf Pál.

Ólöf Pálsdóttir myndhöggvari.
Ólöf Pálsdóttir myndhöggvari. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert