Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, er nú farinn í eins árs leyfi frá stofnuninni að því er fram kemur í tilkynningu frá Velferðarráðuneytinu. Heiða Björg Pálmadóttir, staðgengill Braga, staðfesti í samtali við mbl.is að hún taki við forstjórastarfinu á meðan.
Á fundi ríkisstjórnar í morgun var samþykkt að sækjast eftir sæti fyrir Íslands hönd í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna. Verður Bragi í kjöri til nefndarinnar, en í henni sitja 18 sérfræðingar Hann fær eins árs leyfi frá mánaðamótum vegna þessa og hættir störfum hjá Barnavernd ef hann nær kjöri.
Fram kemur í tilkynningunni að Bragi muni, samhliða undirbúningi vegna framboðs síns, sinna „afmörkuðum verkefnum í Velferðarráðuneytinu sem snúa að tilteknum áherslumálum ráðherra í málefnum barna samkvæmt samningi þar að lútandi“.
Það er Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, sem veitir Braga leyfið, en nái hann kjöri lætur hann af embætti sínu sem forstjóri Barnaverndarstofu. Segir í tilkynningunni að þetta sé gert þar sem áhersla er lögð á að nefndarmenn séu óháðir barnverndaryfirvöldum í einstökum ríkjum SÞ.
Er staða Braga sem frambjóðanda Íslands talin sterk vegna áratuga reynslu hans af málaflokknum og þátttöku í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði.
Velferðarráðuneytið greindi fyrr í morgun frá því að breytingar væru væntanlegar á sviði barnaverndar. Endurskoða eigi eftirlit með öllu barnaverndarstarfi í landinu og ráðast í heildarendurskoðun barnaverndarlaga. Þá verði settar skýrar formkröfur um samskiptahætti stjórnvalda sem gegna hlutverki á sviði barnaverndar.
Fram kom í tilkynningunni að ráðherra, hafi í dag fundað með formönnum barnaverndarnefnda Reykjavíkur, Hafnarfjarðar og Kópavogs og kynnt þeim áformaðar breytingar.
Formenn þessara barnaverndarnefnda leituðu til velferðarráðuneytisins síðastliðið haust vegna samskipta við Barnaverndarstofu og forstjóra hennar og lögðu fram umkvartanir þar að lútandi.
Sagði í tilkynningunni að ráðuneytið hafi tekið umkvartanirnar til efnislegrar umfjöllunar, sem nú sé lokið, og að niðurstöðurnar hafi verið kynntar aðilum málsins.