Ársleyfi Braga Guðbrandssonar, forstjóra Barnaverndarstofu, frá stofnuninni tengist ekki kvörtunum frá barnaverndarnefndum höfuðborgarsvæðisins í hans garð. Hann sóttist sjálfur eftir breytingu í starfi.
Að því er Rúv greinir frá segir Ásmundur Braga hafa sjálfan óskað eftir því að skipta um starfsvettvang eftir að þau mál komu upp.
Fyrr í dag var greint frá því að á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun var samþykkt að sækjast eftir sæti fyrir Íslands hönd í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna. Verður Bragi í kjöri til nefndarinnar.
Ásmundur fundaði í dag með formönnum barnaverndarnefnda Reykjavíkur, Hafnarfjarðar og Kópavogs en formenn þessara barnaverndarnefnda leituðu til velferðarráðuneytisins síðastliðið haust vegna samskipta við Barnaverndarstofu og forstjóra hennar og lögðu fram umkvartanir þar að lútandi.
Í tilkynningunni frá velferðarráðuneytinu segir að umkvartanirnar hafi verið teknar til efnislegrar umfjöllunar, sem nú sé lokið, og að niðurstöðurnar hafi verið kynntar aðilum málsins.
Ásmundur segir við Rúv að niðurstaða þessarar vinnu sé að formgera þurfi betur samskiptin á milli barnaverndarnefnda og Barnaverndarstofu. Þá segir hann að tilfærsla Braga tengist áherslu sinni á það að fá Braga til starfa í ráðuneytinu til þess að kortleggja snemmtæka íhlutun barna.
Enn fremur segist Ásmundur ekki eiga von á því að Bragi snúi aftur til starfa sem forstjóri Barnaverndarstofu þar sem hann telji nánast öruggt að hann nái kjöri í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna. Staðan verði því auglýst til umsóknar.