Höskuldur Daði Magnússon
„Við erum að fara í gegnum þau gögn sem við höfum og yfirheyra þessa aðila. Það verður væntanlega tekin afstaða til þess í dag hvort farið verður fram á áframhaldandi gæsluvarðhald,“ segir Jóhannes Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurnesjum.
Tveir íslenskir karlmenn sitja í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar lögreglunnar á Suðurnesjum á innbrotum í gagnaver í Reykjanesbæ og Borgarbyggð. Brotist var inn á þremur stöðum og reynt að brjótast inn á þeim fjórða.
Alls var 600 tölvum stolið og er verðmæti þýfisins talið nema rúmum 200 milljónum króna. Þá lögreglumenn sem Morgunblaðið hefur rætt við vegna málsins rekur ekki minni til þess að viðlíka upphæðir hafi áður verið nefndar í tengslum við innbrot og þjófnaði hér á landi. Því liggur við að um sé að ræða stærsta þjófnaðarmál Íslandssögunnar, í hefðbundnum skilningi þess hugtaks hið minnsta.