Fundaði með sendiherra um umskurð

mbl.is/Kristinn Magnússon

Formaður Samtaka evrópskra gyðinga, Menachem Margolin, fundaði með Bergdísi Ellertsdóttur, sendiherra Íslands í Belgíu, í gær um frumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, og átta annarra þingmanna um að umskurður drengja verði bannaður með sama hætti og umskurður stúlkna. Þetta kemur fram á fréttavef bandaríska dagblaðsins Algemeinar Journal sem fjallar um málefni tengd gyðingum.

Eftir fundinn sagði Margolin að Bergdís hafi nálgast málið af skynsemi og raunsæjan hátt og að orð hennar hafi verið hughreystandi. Ljóst væri eftir fundinn að um væri að ræða þingmannamál sem nyti ekki frumkvæðis eða stuðnings Alþingis í heild. það eitt væri góð byrjun. Sagði hann samtal við íslenska þingmenn um málið halda áfram.

Haft er eftir Silju í fréttinni að umskurður drengja og stúlkna eigi það sameiginlegt að upplýst samþykki sé haft að engu. Ekki væri um nauðsynlega aðgerð að ræða og hún yrði ekki aftur tekin. Umskurður gæti leitt til alls kyns alvarlegra aukaverkana, afmyndunar og jafnvel dauða. Sem betur fer væri það þó ekki raunin í mörgum tilfellum en það gerðist og eitt slíkt tilfelli væri einu of mikið þegar um væri að ræða óneuðsynlegt inngrip.

Spurð hvort hún gerði sér grein fyrir því að yrði frumvarp hennar að lögum yrði það til þess að gyðingar gætu ekki búið á Íslandi segir hún að bann við umskurði færi ekki gegn trúfrelsi foreldra drengja og að gyðingar yrðu alltaf velkomnir til Íslands.

Rætt er einnig við ýmsa forystumenn gyðinga í heiminum sem fara hörðum orðum um frumvarpið. Verði frumvarpið að lögum séu það skilaboð til heimsins að gyðingar séu ekki velkomnir á Íslandi. Ekki sé um að ræða hefð sem aðeins hluti gyðinga hafi í heiðri heldur hafi hún fylgt gyðingum frá því á tímum Abrahams.

Rabbíni gyðinga í Moskvu, höfuðborg Rússlands, Pinchas Goldschmidt, segir í samtali við blaðið að Silja virðist ekki hafa gert sér grein fyrir áhrifum frumvarpsins og að verði það að lögum gæti það sett fordæmi sem önnur ríki gætu ákveðið að fylgja. Þar með yrði allir gyðingar brennimerktir sem glæpamenn.

„Það má ekki gerast og því verður ekki leyft að gerast.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka