Fyrsta skóflustungan að 155 íbúðum

155 leiguíbúðir verða byggðar við Móaveg í nágrenni Spangarinnar í …
155 leiguíbúðir verða byggðar við Móaveg í nágrenni Spangarinnar í Grafarvogi. Tölvuteikning

Fyrsta skóflustungan að 155 nýjum leiguíbúðum sem Bjarg íbúðafélag byggir verður tekin í dag kl. 14 við Móaveg í Spönginni í Reykjavík.

Um er að ræða fyrsta byggingaverkefni Bjargs en félagið áformar umfangsmiklar framkvæmdir á næstu misserum, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Reiknað er með að um 450 íbúðir verði komnar í byggingu hjá félaginu í lok árs þessa árs og rúmlega 1.000 til viðbótar á næstu þremur til fjórum árum. Íbúðir í fyrsta áfanga verða meðal annars í Reykjavík, á Akranesi og Akureyri. Þá á félagið í viðræðum við sveitafélög víðar á landinu. Næstu byggingarframkvæmdir á eftir Móavegi hefjast svo strax í apríl við Urðarbrunn í Úlfarsársdal en þar verða byggðar 83 íbúðir. Reiknað er með að fyrstu íbúðirnar við Móaveg verði afhentar í júní 2019 og fyrstu íbúðirnar í Úlfarsársdal skömmu síðar.

Íslenskir aðalverktakar munu sjá um byggingu fjölbýlishúsanna í Spönginni, Verkfræðistofan Mannvit sér um verkfræðihönnun og arkitekt er Yrki arkitektar.

„Hagsýni, skynsemi og gæði eru höfð að leiðarljósi við hönnun íbúðanna til að halda leiguverði lágu og er þar m.a. horft til fermetrafjölda,“ segir í fréttatilkynningunni. Íbúðir eru því ekki stórar, um verður að ræða 45 fermetra tveggja herbergja íbúðir, 70 fermetra þriggja herbergja íbúðir, 85 fermetra fjögurra herbergja íbúðir og 100 fermetra fimm herbergja íbúðir.

Bjargi er ætlað að skapa tekjulægri hópum öruggt og gott húsnæði. Opnað verður fyrir skráningu á biðlista vegna íbúðanna á heimasíðu Bjargs í apríl á slóðinni bjargibudafelag.is.

Íbúðir eru því ekki stórar, um verður að ræða 45 …
Íbúðir eru því ekki stórar, um verður að ræða 45 fermetra tveggja herbergja íbúðir, 70 fermetra þriggja herbergja íbúðir, 85 fermetra fjögurra herbergja íbúðir og 100 fermetra fimm herbergja íbúðir. Tölvuteikning

  „Við hjá Bjargi fögnum þessum mikilvæga áfanga,“ er haft eftir Birni Traustasyni, framkvæmdastjóra Bjargs, í fréttatilkynningunni. „Næstu skóflustungur bíða okkar handan hornsins og krefjandi verkefni framundan hjá félaginu.“

Gylfi Arnbjörnsson, stjórnarformaður Bjargs og forseti ASÍ, segir að um sé að ræða byrjun á gríðarstóru verkefni. „Íbúðafélagið Bjarg mun hefja byggingu og hönnun 600 íbúða á þessu ári og alls klára um 1.500 íbúðir á næstu fjórum árum. Þetta er mikilvægt átak í húsnæðismálum þeirra tekjulægstu og mun að auki stuðla að lækkun leiguverðs á almennum markaði með því að draga úr eftirspurn. ASÍ er stolt af því að hafa komið þessu verkefni af stað.”

Elín Björg Jónsdóttir, stjórnarmaður í Bjargi og formaður BSRB, segir gleðilegt að sjá samtakamátt verkalýðshreyfingarinnar virkjaðan til að taka á brýnum vanda á húsnæðismarkaði, „vanda sem margir okkar félagar þekkja allt of vel. Við þurfum að halda vel á spöðunum svo uppbyggingin verði hröð og sem flestir fái öruggt þak yfir höfuðið sem fyrst“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka