Tveir íslenskir göngumenn á ferð í Reykjadal ofan Hveragerðis báðu um aðstoð björgunarsveita um kvöldmatarleytið í gærkvöldi. Höfðu mennirnir týnt áttum í hríðarverði og farið út af gönguslóðanum.
Björgunarsveitarmenn frá Hveragerði og Eyrarbakka fóru á vettvang. Göngumennirnir fundu hins vegar slóðann aftur af sjálfsdáðum og mættu björgunarsveitarfólkinu á leið sinni niður.
„Það gerðist hið klassíska íslenska, það fór að ganga á með éljum og mennirnir töpuðu áttum og voru komnir út fyrir slóðann og að klettum,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar. Hann segir mennina svo hafa séð í stiku og fundið slóðann aftur í kjölfarið.