„Það hafa verið of margir stormar á þessu ári, þannig að það hljóta að hafa losnað skrúfur því neðri hluti þess losnaði,“ segir Klaus Ortlieb, einn eigenda Hlemmur Square, um skiltið sem hangir á bláþræði á húsinu.
Hann segir að skiltið hafi verið uppi alveg síðan staðurinn var opnaður og að á hverju ári sé gerð á því öryggisathugun, nú síðast í október og þá var allt í himnalagi.
Skiltið, sem er úr áli, er um fjögurra metra hátt, um hálfur metri að breidd og vegur um 200 kíló. Þótt það verði klippt niður af björgunarsveitarmönnum og lendi á jörðinni mun það ekki brotna í fjölmarga búta, að sögn Klaus.
Hann segist fyrst hafa talað við lögregluna vegna þess að hann óttaðist um öryggi gangandi vegfarenda en fékk dræm viðbrögð í fyrstu. „Lögreglan mætti og sagði við mig: „Þetta er þitt skilti og það er á þína ábyrgð“.
Klaus bað því starfsmenn sína um að beina almenningi á gangstéttina hinum megin við götuna.
Á sama tíma var hann að halda kynningu á fyrsta bitcoin-hraðbankanum á Íslandi á hótelinu og náði í gegnum gesti kynningarinnar sambandi við björgunarsveitarmenn, auk þess sem lögreglan kom aftur á staðinn og girti svæðið af.
„Þeir eru alveg yndislegir og virkilega hjálpsamir,“ segir hann um björgunarsveitarmennina sjö sem reyna að klippa skiltið niður. „Ég get ekki sagt alveg það sama um lögregluna.“
Hann bætir við hlæjandi: „Ég hef aldrei séð jafnmarga ferðamenn standa í rigningunni, takandi myndir.“