Strætó skoðar nú mál þar sem stúlka sem á við þroskahömlun að stríða var skilin ein eftir á röngum áfangastað. Ljóst er að pöntunin sem móðir stúlkunnar sendi inn var hárrétt en rangt skráð inn í kerfið af starfsmanni Strætó.
Þetta segir Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdarstjóri Strætó, í samtali við mbl.is. „En svo erum við að fara yfir önnur skref og viðbrögð hjá okkur og það er ekki búið,“ segir hann.
Áslaug Ósk Hinriksdóttir, móðir stúlkunnar gagnrýnir harðlega að dóttir hennar hafi verið skilin eftir þrátt fyrir að hún hafi sagt bílstjóranum frá því að um mistök hafi verið að ræða. Pöntuð var akstursþjónusta fyrir stúlkuna, sem ætlaði á ball í félagsmiðstöð en hún var síðan skilin eftir fyrir utan skólann sinn sem er í öðru hverfi.
„Við erum með kerfi sem er með staðina inni og rangur staður hefur verið valinn,“ segir Jóhannes. Hann ítrekar að málið sé enn til skoðunar og farið verði vel yfir allt verklag til þess að koma í veg fyrir svona gerist.
„Okkur þykir afskaplega leitt að svona komi fyrir og biðjum forráðamanninn og stúlkuna afsökunar á þessu,“ segi Jóhannes.