Helstu vegir á Suðurlandi eru greiðfærir en þó er krapi á Hellisheiði sem verið er að hreinsa. Sömu sögu er að segja af Norðurlandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.
Hálkublettir eru á Holtavörðuheiði, krap á Bröttubrekku og hálka á Laxárdalsheiði. Fróðárheiði er lokuð vegna ófærðar, sem og Þingskálavegur (nr. 268) sem er ófær vegna vatnsskemmda. Þá er varað við flughálku í sunnanverðum Patreksfirði og á Kleifaheiði.
Í tilkynningunni segir að mikið beri á slitlagsskemmdum á vegum vegna veðurs. Á þessum árstíma sé einungis hægt að bregðast við með ófullkomnum bráðaviðgerðum og eru vegfarendur því beðnir um að sýna sérstaka aðgát. Þungatakmarkanir eru í gildi í flestum landshlutum og miðað við 10 tonna ásþunga.