Neyðarlúgur opnar vegna úrkomu

Þrjár skólphreinsistöðvar og fimm dælustöðvar eru í borginni.
Þrjár skólphreinsistöðvar og fimm dælustöðvar eru í borginni. Ljósmynd/Orkuveita Reykjavíkur

Neyðarlúgur skólphreinsistöðva borgarinnar hafa sumar hverjar verið opnar með hléum síðasta sólarhringinn. Að sögn Ólafar Snæhólm Baldursdóttur, upplýsingafulltrúa Veitna, er ástæðan mikil úrkoma síðasta sólarhringinn og tilheyrandi álag á fráveitukerfinu. Sólarhringsúrkoma í gær mældist um 33 millimetrar, sem er tæpur helmingur af hefðbundinni mánaðarúrkomu í borginni.

Þegar þetta er skrifað eru neyðarlúgur dælustöðvanna í Gufunesi og Skeljanesi opnar en í nótt var dælustöðin að Laugalæk opin í tíu tíma og skólphreinistöðin að Klettagörðum í fimm tíma. Ekki er um bilun að ræða, en neyðarlúgurnar opnast sjálfkrafa þegar álag á kerfið er of mikið.

Aðspurð segist Ólöf gera ráð fyrir að sama sé uppi á teningnum hjá öðrum skólphreinsistöðvum á landinu þótt upplýsingar um slíkt séu ekki jafnaðgengilegar og í Fráveitusjá Veitna. Ólöf á von á að álagið á kerfið minnki á næstu tímum og neyðarlúgunum verði lokað. Þangað til flýtur fráveituvatn, mestmegnis úrkoma en að hluta til óhreinsað skólp, í sjó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert