Suðaustanstormur er á leið austur yfir landið og rignir talsvert samfara skilunum. Mikil úrkoma verður suðaustanlands fram undir hádegi.
Þetta kemur fram í athugasemd veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.
Í dag er spáð minnkandi suðaustanátt um vestanvert landið en annars verða 15 til 23 metrar á sekúndu. Talsverð rigning verður suðaustanlands en úrkomulítið á Norðurlandi. Skúrir verða vestan til.
Hiti verður á bilinu 3 til 10 stig, hlýjast nyrst.
Þegar líður á daginn kólnar með éljum sunnan- og vestanlands en lægir og styttir upp austast. Víða verða sunnan 8 til 10 metrar á sekúndu í kvöld, hvassast vestan til. Lægir í nótt og úrkomulítið.
Á morgun gengur í suðaustan 13 til 20 metra á sekúndu, hvassast við suðvesturströndina.
Slydda og rigning verður síðar um landið sunnan- og vestanvert en lengst af þurrt fyrir norðan og austan. Hlýnar aftur.