Tæplega 440 kandídatar úr grunn- og framhaldsnámi brautskrást frá Háskóla Íslands við hátíðlega athöfn í Háskólabíói klukkan 13 í dag.
Athöfnin hefst með ávarpi Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands.
Í framhaldinu fer fram brautskráning nemenda úr deildum af öllum fimm fræðasviðum skólans, félagsvísindasviði, heilbrigðisvísindasviði, hugvísindasviði, menntavísindasviði og verkfræði- og náttúruvísindasviði, að því er segir í tilkynningu.
Samanlagður fjöldi brautskráðra er 437 með 438 prófgráður. 188 kandídatar taka við brautskráningarskírteini sínu frá félagsvísindasviði, 50 frá heilbrigðisvísindasviði, 70 frá hugvísindasviði, 59 frá menntavísindasviði og 70 frá verkfræði- og náttúruvísindasviði.
Að lokinni brautskráningu kandídata mun Sigmar Aron Ómarsson, hagsmunafulltrúi Stúdentaráðs og laganemi, flytja ávarp og Háskólakórinn syngur nokkur lög.