Berst gegn umskurði sonar síns

Íslenskur karlmaður, sem hefur staðið í áralangri baráttu við fyrrverandi eiginkonu sína um umskurð á syni þeirra, er ánægður með frumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttir, þingmanns Framsóknarflokksins, um bann við umskurði stráka.

Maðurinn, sem vill ekki koma fram undir nafni, sendi Silju bréf á dögunum þar sem segir sögu sína, en það var birt á Facebook-síðu Intact Iceland, hóps sem berst fyrir því að umskurður ólögráða drengja verði bannaður.

Fyrrverandi eiginkona mannsins er frá Filippseyjum og hefur hún, síðan þeim fæddist sonur árið 2011, barist fyrir því að hann yrði umskorinn. Hún myndi sjálf sjá um umskurðinn á heimili þeirra. Konan er kaþólikki en að sögn mannsins eru engar trúarlegar ástæður að baki þessari skoðun. „Hún heldur því bara fram að typpið yrði ekki flott ef það væri ekki umskorið, og það myndi há honum í kynlífi því konur vilji þau umskorin.“ Hann segir umskurð mjög algengan á Filippseyjum.

„Þetta hvarflaði aldrei að mér. Ég hafði ekki einu sinni hugsað út í umskurð og að hann yrði ágreiningsefni, fyrr en hann þetta upp,“ segir maðurinn. Maðurinn og barnsmóðirin eru skilin en hann segir þessar þessar deilur þó ótengdar því.

Óvænt að kirkjan leggi blessun yfir ofbeldi

Barátta mannsins hefur staðið yfir lengi. „Fyrst um sinn veitti enginn þessu athygli,“ segir hann og nefnir að hann hafi sent öllum fjölmiðlum og stjórnmálaflokkum bréf fyrir nokkrum árum. Eina svarið sem hafi borist hafi verið frá Pírötum; þeir myndu skoða málið. „Ég er ekki bardagamaður, en ég vil ekki sjá eggvopn nálægt kynfærum sonar míns. Það er bara þannig.“

Dómkirkjan í Reykjavík
Dómkirkjan í Reykjavík mbl.is/Ómar Óskarsson

Maðurinn lýsir vonbrigðum með afstöðu Þjóðkirkjunnar og Fríkirkjunnar, en Agnes M. Sigurðardóttir biskup leggst gegn því að frumvarpið verði samþykkt og prestur Fríkirkjunnar hefur kallað frumvarpið „verulega vanhugsað“. Segir maðurinn kirkjurnar með þessu leggja blessun sína yfir ofbeldi og hann muni passa upp á að halda syni sínum frá slíkum stofnunum. Umskurður á börnum eigi ekki að fara fram nema það sé talið nauðsynlegt í lækningaskyni.

Aðspurður segist maðurinn bjartsýnn á að frumvarpið verði samþykkt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert