Byrjað er að hleypa farþegum úr vélum sem setið hafa fastar á Keflavíkuflugvelli vegna veðurs. mbl.is greindi frá því fyrir stundu að ekki væri hægt að nýta landgöngubrýr eða stigabíla, sem venjulega eru notuð til að koma fólki úr flugvél og inn í flugstöð, vegna mikils vinds.
Síðan hefur vindinn lægt lítillega og eru starfsmenn nú á fullu að losa flugvélar með hjálp stigabíla og rúta. Þetta staðfestir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia.
Af sömu ástæðu hafa vélar ekki getað tekið af stað á vellinum frá klukkan fimm. Ráðgert er að hægt verði að hleypa farþegum um borð í vélar á ný með stigabílum innan skamms. Nær engin brottför hefur verið frá vellinum síðan klukkan fjögur í dag.
Flugum Icelandair til sjö amerískra borga sem leggja áttu af stað um fimmleytið hefur verið frestað til klukkan 19:30. Að sögn Guðjóns hefur seinkun sem þessi alltaf keðjuverkandi áhrif og má búast við töfum á flugi fram eftir kvöldi.