Rafmagnslaust í Bláfjöllum

Úr Bláfjöllum.
Úr Bláfjöllum. Ómar Óskarsson

Rafmagnslaust hefur verið á skíðasvæðinu í Bláfjöllum alla helgina. Að sögn Einars Bjarnasonar, rekstrarstjóra skíðasvæðisins, fór raflína í eigu Orkuveitunnar í sundur í óveðrinu aðfaranótt föstudags. 

Nær allt svæðið, þar með talið skíðalyftur, er því án rafmagns. „Þetta er loftlína sem fór í sundur, en hún ætti auðvitað að vera löngu komin í jörð,“ segir Einar en til stendur að gera það í sumar. Starfsmenn Orkuveitunnar komu í Bláfjöll í gær að hefja viðgerðir. Kom í ljós að skemmdirnar eru mun meiri en upphaflega var talið. Viðgerð ætti þó ekki að taka langan tíma, en Einar segir að henni ljúki í fyrsta lagi á morgun.

Rafmagnsleysið hefur lítil áhrif haft á opnun skíðasvæðisins enda ekki veður til skíðaiðkunar síðustu daga. „Þetta hefði ekki getað lent á betri helgi,“ segir hann.

Við ýmsu búin

Þótt línan hafi farið í sundur er ekki rafmagnslaust með öllu á svæðinu. Vararafstöð er til staðar sem má meðal annars nota á flóðljósin í fjallinu. Einar segir varastöðinni hafa verið komið upp um aldamót. 

„Það var veturinn '99 til 2000, sem rafmagnið fór af skíðasvæðinu meðan opið var,“ rifjar Einar upp. Sjónvarpsbíll keyrði utan í rafmagnsstaur með fyrrgreindum afleiðingum. Skíðalyfturnar stoppuðu og fjöldi fólks var fastur í fjallinu í niðamyrkri. Það var áður en Einar fór að vinna í Bláfjöllum, en hann var gestur í fjallinu þennan dag. Eftir þetta hafi verið ákveðið að koma upp vararafstöð fyrir flóðlýsinguna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert