Rúta með 26 unglingum valt á hliðina

Frá slysstaðnum.
Frá slysstaðnum. mbl.is/Eggert

Rúta með 32 manns valt á hliðina á Borgarfjarðarbraut í grennd við Hvanneyri. Tilkynning um slysið barst klukkan 16.20.

Að sögn Ólafs Guðmundssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Vesturlandi, meiddust einhverjir minni háttar að því er talið er. Að minnsta kosti einn var fluttur á slysadeild.  

26 fimmtán ára franskir unglingar voru um borð í rútunni og með þeim voru fjórir fullorðnir. Tveir til viðbótar voru í rútunni, eða bílstjóri og leiðsögumaður.

Sett hefur verið upp fjöldahjálparstöð í Borgarnesi í menntaskóla bæjarins og þangað var fólkið flutt.

Allt tiltækt lögreglu-, sjúkra- og slökkvilið frá Akranesi og Borgarnesi, auk björgunarsveita, var kallað á vettvang.

Hópslysaáætlun almannavarna var einnig virkjuð.

Einhverjir þeirra sem voru boðaðir á staðinn voru afturkallaðir þegar ljóst var að slysið var ekki eins alvarlegt og menn héldu í fyrstu.

Aðspurður segir Ólafur ekki vita hvað olli slysinu, að svo stöddu. 

Mjög hvasst var á svæðinu þegar slysið varð en rafmagn fór af í Skorradal um fjögurleytið í dag. 

Uppfært kl. 17.55:

Slysið varð á Borgarfjarðarbraut rétt sunnan við veginn að Heggstöðum, að því er kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum.

Einn var fluttur á Heilbrigðisstofnunina á Vesturlandi í Borgarnesi og síðar á Landspítala vegna einkenna frá hálsi.

Hinir í rútunni voru fluttir á fjöldahjálparstöðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert