Yfir 1.100 hjúkrunarfræðingar og ljósmæður hafa skrifað undir til stuðnings frumvarpi Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um að umskurður barna almennt verði bannaður með lögum.
Íris Björg Bergmann Þorvaldsdóttir hjúkrunarfræðingur og Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir, settu af stað undirskriftalista á fimmtudagskvöld. Í gær voru þær orðnar 600 talsins.
„Siðareglur hjúkrunarfræðinga kveða á um að hjúkrunarfræðingar eigi að vera málsvarar
skjólstæðinga sinna og standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt þeirra. Í siðareglum ljósmæðra er kveðið á um að í umönnun sinni fyrir konum og fjölskyldum þeirra virða ljósmæður sjónarmið ólíkra menningarheima en reyna jafnframt að útrýma heilsuspillandi aðferðum sem þar eru viðhafðar.“ Þetta kemur fram í stuðningsyfirlýsingunni.
Í síðustu viku höfðu rúmlega 400 íslenskir læknar lýst yfir ánægju með frumvarpið. Læknar segja málið ekki flókið þó það hafi ýmsar hliðar. Telja þeir þær aðgerðir sem gerðar séu án læknisfræðilegra ástæðna ganga gegn Genfaryfirlýsingu lækna.