29 milljónir vegna flugs og bílaleigubíla

mbl.is/Kristinn Magnússon

Kostnaður Alþingis vegna flugferða þingmanna innanlands á síðasta ári var 15 milljónir króna og kostnaður vegna bílaleigubíla 14 milljónir króna. Þetta kemur fram í svari Helga Bernódussonar, skrifstofustjóra Alþingis, við fyrirspurn mbl.is.

Ennfremur segir að allar greiðslur til þingmanna umfram þingfararkaup á þessu ári, bæði fastar greiðslur og breytilegar, séu áætlaðar 185 milljónir króna. Þar af gæti um þriðjungur þeirra verið breytilegur kostnaður, þá aðallega ferðakostnaður.

Endurgreiddur kostnaður, það er fjármunir sem fara um hendur þingmanna, er um 15% af þessum heildargreiðslum eða um 25 milljónir króna. Spurður um húsnæðis- og dvalarkostnað segir Helgi að allir landsbyggðarþingmenn eigi rétt á honum.

Þeir þingmenn sem hafi sannarlega tvö heimili samkvæmt skilgreiningu á því á þingstað og í heimahéraði eigi rétt á 40% aukaálagi. Þeir þingmenn séu níu talsins. Lögheimili hafi ekki áhrif í þessu sambandi og hafi ekki gert frá 1995 heldur hvar þingmaðurinn er kosinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert