Áfram í haldi vegna innbrots í gagnaver

Gagnaver Advania á Fitjum.
Gagnaver Advania á Fitjum. vb.is/Hilmar Bragi

Síðastliðinn föstudag voru tveir karlmenn sem hafa setið í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar lögreglunnar á Suðurnesjum á innbrotum í gagnaver í Reykjanesbæ og Borgarbyggð, úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald fram til föstudagins 2. mars. Þetta staðfestir lögreglan á Suðurnesjum, en verst frekari frétta af rannsókninni.

Brotist var inn á þreimur stöðum og reynt að brjótast inn á þeim fjórða, en alls var 600 tölvum stolið og er verðmæti þýfisins talið nema rúmum 200 milljónum króna.

Innbrotin þrjú voru framin á tímabilinu frá 5. desember síðastliðnum til 16. janúar. Þeim er lýst sem „þaulskipulögðum“. Rannsókn málsins er nokkuð umfangsmikil, enda er það álitið tengjast skipulagðri glæpastarfsemi, og hafa alls níu manns verið handteknir. Fjórir voru upphaflega úrskurðaðir í gæsluvarðhald og tveir eru enn í gæsluvarðhaldi, líkt og áður sagði.

Einn hinna handteknu var öryggisvörður hjá Öryggismiðstöðinni. Fyrirtækið annast öryggismál fyrir Advania en einn staðurinn sem brotist var inn á var á framkvæmdasvæði við gagnaver fyrirtækisins á Fitjum. Auk þess liggur fyrir að brotist var inn í gagnaver Borealis Data Center í Borgarbyggð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert