Innheimtustofnun sveitarfélaga hefur þurft að afskrifa meðlagskröfur eftir gjaldþrot einstaklinga upp á tæpan milljarð króna eða 993 milljónir á síðustu fimm árum.
Hafa afskriftirnar aukist mikið að undanförnu, þær voru 407 milljónir í fyrra, og er meginástæðan sú að fyrningartími meðlagskrafna styttist úr tíu árum í tvö með lagabreytingu árið 2010, til að auðvelda skuldurum að koma fjármálum sínum á réttan kjöl.
Innheimtustofnun sveitarfélaga hefur sent dómsmálaráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga bréf til að upplýsa um stöðuna og að ekkert lát virðist vera á umtalsverðri skerðingu á kröfueign sveitarfélaga vegna þessa.
Í bréfinu segir að það veki athygli að hluti þessara afskrifta sé vegna meðlagsgreiðenda sem hafa til þess tíma er afskrift fer fram greitt af skuldum sínum, þeir séu m.ö.o. í flestum tilfellum borgunarmenn meðlagsskulda sinna, að því er fram kemur í fréttaskýringu um þetta efni í Morgunblaðinu í dag.