Mikið var að gera hjá neyðarvakt tryggingafélaga um helgina en fjöldi tilkynninga barst vegna vatnsleka á höfuðborgarsvæðinu í kjölfar leiðindaveðurs á föstudag.
„Það var mikið að gera á neyðarvaktinni um helgina,“ segir Kjartan Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri einstaklingsráðgjafar og markaðsmála hjá TM. Hann segir að fyrirtækinu hafi borist um 60 símtöl vegna tjóns tengdu veðrinu.
„Staðan er hræðileg. Við erum með allt úti, allar okkar dælur, allan okkar mannskap og við erum að slá met í útkallafjölda,“ sagði fulltrúi slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu rétt fyrir miðnætti á föstudagskvöld.
„Margir voru að leita ráða og aðstoðar við að forða tjóni en nokkrir tugir tjónstilkynninga hafa borist til okkar þar sem skemmdir hafa orðið á húsnæði eða lausamunum vegna vatns,“ segir Sigurjón Andrésson forstöðumaður markaðsmála og forvarna hjá Sjóvá.