Óska eftir ábendingum um holur

Víða á höfuðborgarsvæðinu má sjá mjög slæmar holur í götunum.
Víða á höfuðborgarsvæðinu má sjá mjög slæmar holur í götunum. mbl.is/Golli

Reykjavíkurborg óskar eftir að íbúar borgarinnar sendi ábendingar um holur sem hafa myndast í malbiki. Verður sérstakur forgangur settur á viðgerðir sem valdið geta slysi eða tjóni á ökutækjum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni.

Undanfarið hefur mikið verið um holumyndanir í götum á höfuðborgarsvæðinu vegna rysjóttrar tíðar. Þannig skemmdust tugir bíla á Vesturlandsvegi við Mosfellsbæ í síðustu viku í sömu holunni sem þar hafði myndast. Víða um höfuðborgarsvæðið má núna sjá litlar holur og allt upp í stór göt sem geta auðveldlega eyðilagt dekk og hjólabúnað bifreiða.

Þeir sem vilja koma ábendingu á framfæri um holumyndun geta hringt í síma- og þjónustuver Reykjavíkurborgar í síma 411 1111 eða sett inn á ábendingavef Reykjavíkurborgar. Geta þær varðað ýmislegt sem viðkemur viðhaldi á eignum borgarinnar eða hreinsun, svo sem holur í malbiki, laus brunnlok, sködduð umferðarmerki, lausar hellur, yfirfullar ruslatunnur, trjágróður sem hindrar för, skemmda bekkir, óþrifnað, snjóhreinsun, bilaðir ljósastaurar eða annað sem tengist þjónustu í borgarlandinu.

Kostnaðaráætlun borgarinnar vegna malbikunarframkvæmda hljóðar upp á tvo milljarða, en lagðir verða 43 kílómetrar af malbiki í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert