Ung vinstri græn telja ólíðandi að Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofiu hafi verið útnefndur sem framboðsefni Íslands til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna. Þetta kemur fram í ályktun framkvæmdastjórnar Ungra vinstri grænna.
„Barnaréttarnefnd sameinuðu þjóðanna hefur það hlutverk að tryggja að þjóðir fari eftir Barnasáttmálanum en gagnrýni á vinnubrögð Braga beinast meðal annars af því að hann sjálfur og Barnaverndarstofa færu ekki ávallt eftir Barnasáttmálanum.
Frá því í nóvember hafa starfsmenn barnaverndarnefnda víða um land stigið fram og sagt frá andlegu ofbeldi af hálfu Braga, ófaglegum vinnubrögðum og því að Bragi hafi hlutast til í kynferðisbrotamálum.
Ung vinstri græn krefjast þess að Ásmundur Einar Daðasson, félags- og jafnréttismálaráðherra, dragi útnefningu Braga Guðbrandssonar til baka. Maður sem sakaður er um alvarleg brot í starfi og mismunun í málsmeðferð á ekki að vera fulltrúi Íslands í nefnd sem þessari. Börn eiga alltaf að njóta vafans,“ segir í ályktuninni sem er birt á Facebooksíðu UVG.