Kostnaður Kópavogsbæjar við vetrarþjónustu þennan veturinn er töluvert hærri en hann var síðasta vetur samkvæmt upplýsingum sem mbl.is fékk sendar frá Kópavogsbæ. Mesti munurinn er á kostnaðinum í nóvember. Var hann rúmar 22 milljónir kr. í nóvember 2017, en árið áður var hann var rúmar 7 milljónir kr.
Kostnaðinn má væntanlega rekja til mikillar glærahálku þann mánuðinn, en vetrarþjónusta tekur jafnt til snjóruðnings og söltunar vegna hálku.
Þess ber þó að geta að nóvember virðist hins vegar hafa verið nokkuð sveiflukenndur undanfarin ár, því 2015 nam kostnaðurinn rúmum 13 milljónum en árið áður ekki nema þremur milljónum.
Kostnaður við vetrarþjónustu fyrir almanaksárið 2017 fór töluvert fram úr áætlun samkvæmt upplýsingum bæjarins. Kostnaðaráætlunin hljóðaði upp á 100.000 milljón kr. en raunkostnaður varð 143.576 milljónir kr. sem er 43% yfir áætlun. Árið áður var kostnaðurinn tæpar 110 milljónir kr.
Því fer þó fjarri að þetta sé mesti kostnaður sem Kópavogsbær hefur þurft að punga út vegna vetrarþjónustu, því árin 2014 og 2015 reyndust bænum einnig dýr.
2014 nam kostnaðurinn tæpum 157 milljónum og var desembermánuður Kópavogi einkar dýr það árið, en þann mánuðinn nam kostnaðurinn við vetrarþjónustu tæpum 98 milljónum króna. 2015 reyndist bænum einnig kostnaðarsamt, en það árið nam kostnaðurinn rúmum 175 milljónir kr.
Það sem af er þessu almanaksári nemur kostnaðurinn tæpum 29 milljónum króna. Það má gefa sér að tölur vegna febrúarmánaðar séu aðeins að litlu leyti komnar þar inn, þar sem kostnaðurinn nemur ekki nema rúmlega 1,2 milljónum kr. þann mánuði þrátt fyrir róstusamt veðurfar undanfarið.