Héraðsdómur Reykjavíkur vísað í síðustu viku frá dómi máli manns sem sérstakur saksóknari ákærði árið 2014 fyrir meiri háttar skattalagabrot, en hann var sakaður um að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram á skattframtölum sínum rúmar 900 milljónir kr. í fjármagnstekjur. Rannsókn málsins tók rúm sjö ár.
Maðurinn var einnig til rannsóknar hjá skattayfirvöldum vegna sömu mála. Héraðsdómur segir í dómi sínum, að ekki verði annað séð en að rekstur málanna, bæði hjá sérstökum saksóknara og skattayfirvöldum, á hendur manninum hafi farið á svig við skilyrði um meðalhóf. Var ríkissjóður dæmdur til að greiða lögmanni hans 1,3 milljónir kr. málsvarnalaun.
Fram kemur í dómi héraðsdóms, að sérstakur saksóknari hafi í júlí 2014 ákært manninn fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum. Samkvæmt ákæru lét maðurinn undir höfuð leggjast að telja fram á skattframtölum sínum, vegna gjaldáranna 2007 til og með 2010, fjármagnstekjur samtals að fjárhæð 911.256.860 krónur, sem voru tekjur mannsins af 648 framvirkum samningum sem gerðir voru við Glitni banka, Landsbanka Íslands og Straum-Burðarás fjárfestingabanka.
Maðurinn fór fram á að málinu yrði vísað frá dómi.
Forsaga málsins er sú að árið 2011 hóf skattrannsóknarstjóri ríkisins rannsókn á skattskilum mannsins vegna tekjuáranna 2005 til og með 2009. Beindist hún einkum að vantöldum fjármagnstekjum hans og þar á meðal vantöldum tekjum af framvirkum samningum sem hann gerði við Glitni banka, Landsbanka Íslands og Straum-Burðarás fjárfestingabanka umrædd ár. Vegna rannsóknarinnar kom maðurinn til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra árið 2011 og var skýrsla tekin sama ár af endurskoðanda sem annast hafði skattframtöl mannsins.
Skattrannsóknarstjóri beindi máli mannsins árið 2012 til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara. Kom þar fram að málið væri sent til lögreglurannsóknar á grundvelli fyrirliggjandi gagna um rannsókn skattrannsóknarstjóra á skattskilum ákærða.
Héraðsdómur segir óumdeilt að meðferð mannsins hjá skattyfirvöldum og beiting álags af hálfu skattyfirvalda vegna brota hans á skattalögum sé sakamál í skilningi 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu. Eins verði litið svo á að hvort tveggja, annars vegar beiting álagsins hjá skattyfirvöldum og hins vegar rannsókn sérstaks saksóknara og ákæra í máli sé reist á sömu annmörkum á skattframtölum mannsins. Umrædd mál mannsins tóku að auki til sama tímabils og varða í aðalatriðum sömu fjárhæðir.
Þá segir, að heildartíminn sem rekstur beggja mála mannsins hefur tekið er sjö ár og rúmir fjórir mánuðir og er þá miðað við tímann frá því að skattrannsóknarstjóri hóf rannsókn sína árið 2011 og þar til málið var flutt um frávísunarkröfu ákærða í febrúar 2018. Fram kemur að meðferð málsins fyrir héraðsdómi dróst m.a. á meðan sammæli var um að bíða dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í kærumáli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sem lauk með dómi Mannréttindadómstóls Evrópu 18. maí 2017. Þar var fallist á þau sjónarmið kærenda að þeir hefðu sætt tvöfaldri refsimeðferð.
Héraðsdómur segir, að maðurinn hafi verið settur í óhæfilega óvissu um réttarstöðu sína auk þess sem óþarfa tafir urðu á málarekstri hans hjá ákæruvaldinu, án þess að nokkrar skýringar væru gefnar á því.
„Er niðurstaðan því sú að sakamálin tvö á hendur ákærða, annars vegar hjá skattyfirvöldum og hins vegar í réttarvörslukerfinu, séu það ótengd í tíma að ítrekuð málsmeðferð, með því máli sem hér er til úrlausnar, fari í bága við 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu, eins og ákvæðið hefur verið skýrt af Hæstarétti, m.a. í ljósi dóma Mannréttindadómstóls Evrópu.“ Var málinu vísað frá dómi.