Engar forsendur fyrir uppsögn kjarasamninga

Að mati Samtaka atvinnulífsins er þeim ófært að bregðast við …
Að mati Samtaka atvinnulífsins er þeim ófært að bregðast við forsendubresti sem ekki er fyrir hendi. Ljósmynd/SA

Samtök atvinnulífsins telja ekki forsendur fyrir uppsögn kjarasamninga. Forsendur um aukinn kaupmátt á samningstímanum hafa staðist og launastefna kjarasamninga Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands hefur reynst stefnumarkandi.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu samtakanna sem var afhent á fundi forsvarsmanna SA og viðræðunefndar samninganefndar ASÍ í hádeginu í dag.

Í yfirlýsingu SA um framhald kjarasamninga, segir m.a. að SA, og aðildarfyrirtæki þess, hafi staðið við allar sínar skuldbindingar samkvæmt kjarasamningum við aðildarfélög Alþýðusambands Íslands og raunar langt umfram það í ljósi þess að kaupmáttur launa hafi vaxið meira á samningstímanum en nokkru sinni fyrr. Kaupmáttur launa hafi að jafnaði aukist um 20% og kaupmáttur lægstu launa enn meira, um 25%. Það sé fordæmalaus kaupmáttaraukning á einu samningstímabili á Íslandi og þó víðar væri leitað.

„Kjarasamningar sem gerðir hafa verið undanfarna tólf mánuði eru, að mati Samtaka atvinnulífsins, í samræmi við þá launastefnu sem mótuð var með kjarasamningum aðila. Á framangreindu tímabili hefur samninganefnd ríkisins undirritað kjarasamninga við Læknafélag Íslands, Skurðlæknafélag Íslands og 14 aðildarfélög BHM. Á almennum vinnumarkaði hafa ekki verði gerðir aðrir kjarasamningar en milli Samtaka atvinnulífsins, fyrir hönd einstakra fyrirtækja, og stéttarfélaga sem starfsmenn þeirra eiga aðild að.

ASÍ telur að forsendur hafi brostið og kallar eftir viðbrögðum vegna hins meinta forsendubrests. Að mati Samtaka atvinnulífsins er þeim ófært að bregðast við forsendubresti sem ekki er fyrir hendi.“

Í viðræðum aðila undanfarnar vikur hefur komið fram óánægja með rýrnun vinnumarkaðstengdra réttinda og árlega uppfærslu fjárhæðarmarka í tekjuskattkerfinu. Framangreindri óánægju verður einungis mætt af hálfu stjórnvalda og er ekki á færi Samtaka atvinnulífsins að stuðla að áframhaldandi friðarskyldu á vinnumarkaði með breytingum utan áhrifasviðs þeirra.

Á grundvelli rammasamkomulags, dags. 27. október 2015, hafa Samtök atvinnulífsins, fjármálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, ASÍ og BSRB náð samkomulagi um launaþróunartryggingu fyrir félagsmenn framangreindra samtaka. Rammasamkomulagið fjallar um mikilvægustu þættina í þróun nýs líkans fyrir gerð kjarasamninga hér á landi. Samtök atvinnulífsins vilja við þetta tækifæri lýsa eftirfarandi yfir í tengslum við það mat á forsendum kjarasamninga sem farið hefur fram í febrúarmánuði 2018.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert